Unga fólkið um nýja áratuginn
Nú þegar nýr áratugur er genginn í garð setjast mörg hver niður og velta fyrir sér hver næstu skref verða. Nóg er af markmiðasetningum og lífsstílsbreytingum allt um kring, hvers kyns sem þær eru, og flestir leggja sig fram við að komast smám saman nær draumum sínum.
Víkurfréttir heyrðu í ungu fólki frá Suðurnesjum og fengu að vita hver plön þeirra fyrir 2020 væru.
Jóhanna Jeanna Caudron: Leiklistarskóli draumurinn
„Ég verð danshöfundur í verkinu Benedikt búálfur sem Leikfélag Keflavíkur er að setja upp. Svo er ég að vinna hjá Skólamat og Sambíóunum þannig það er alveg nóg að gera. Ég er aðallega að reyna að safna pening svo ég geti farið í leiklistarskóla. Ég ætla að reyna að gefa mér meiri tíma með vinum og fjölskyldu en það er örlítið erfitt með þann litla frítíma sem ég hef. Svo ætla ég að hekla meira og reyna að vera jákvæðari og þakklátari á árinu.“
Guðrún Pálína Karlsdóttir: Fallegu tvíburastelpurnar
„Ég ætla að ala upp fallegu tvíburastelpurnar mínar, Öldu Rós og Birtu Von. Þær eru búnar að vera á vökudeild frá því þær komu í flýti í heiminn og fæddust 8. nóvember. Ég var þá gengin 28 vikur og við erum ennþá þar. Við förum vonandi heim um mánaðamótin.“
Thelma Dís Ágústsdóttir: Langar að ferðast meira á Íslandi
„Árið 2020 klára ég annað árið mitt í Ball State-háskólanum í Bandaríkjunum þar sem ég læri og spila körfubolta. Okkur er búið að ganga vel á þessu tímabili og ég vona að við náum að enda það með einum titli eða svo. Ég ætla að nýta allan þann tíma sem ég fæ með fjölskyldu og vinum í sumar þegar ég kem heim til Íslands og gera eitthvað skemmtilegt. Mig langar að ferðast meira og þá sérstaklega innanlands. Held reyndar að ég sé búin að segja þetta nokkur ár í röð en ég ætla að láta verða af því þetta árið.“
Brynja Rúnarsdóttir: Nóg að gera í líkamsþjálfun og kennslu
„Ég er kennari í Sandgerðisskóla, er með umsjónarbekk og að kenna íþróttir. Svo er ég og kærastinn minn, Daníel Örn, með þjálfun í Sporthúsinu í Reykjanesbæ, bæði einka- og hópþjálfun en einnig með fjarþjálfun. Við erum að opna nýja fjarþjálfunarsíðu núna í janúar þar sem hægt er að kaupa áskrift á styrktarprógrömum ásamt fleiru. Hægt er að finna okkur undir Þín Þjálfun á samfélagsmiðlum. Svo er ég einnig að þjálfa í Superform í Sporthúsinu svo það verður nóg að gera árið 2020.“
Ásta María Vestmann: Vinna í markmiðunum
„Ég ætla að vinna í markmiðunum mínum, reyna að njóta hverrar stundar og hafa það gott með fólkinu í kringum mig. Ég er að klára annað árið mitt í Menntaskólanum í Reykjavík núna í vor og síðan ætla ég líklegast að vinna í sumar.“
Andri Þór Árnason: Útskrift í vor
„Ég stefni á að útskrifast úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vor og síðan taka mér árs pásu frá námi og vinna. Ég stefni á að fá vinnu í bæjarvinnunni sem flokksstjóri og svo um haustið langar mig að vinna með börnum, til dæmis sem stuðningsfulltrúi í skóla eða leikskóla.“