Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Ung söngkona í úrslitum Jólastjörnunnar
Sesselja Ósk með mömmu sinni, Kristínu Ósk. VF-mynd/dagnyhulda
Fimmtudagur 12. nóvember 2015 kl. 09:56

Ung söngkona í úrslitum Jólastjörnunnar

Sesselja Ósk æfir sig í karaókí-klefanum í Hljómahöll.

Sesselja Ósk Stefánsdóttir, nemandi í 4. bekk Myllubakkaskóla, er komin í úrslit Söngkeppninnar Jólastjarnan 2015. Keppnin er fyrir börn 16 og yngri og sendu um 300 börn inn myndbönd í keppnina í ár. Tólf komust í úrslit og er Sesselja yngst þeirra. Þau koma svo öll fram á Jólatónleikum Björgvins Halldórssonar þann 12. desember í Laugardalshöll. Sesselja er dóttir Kristínar Óskar Wium og Stefáns Más Guðmundssonar. Kristín sendi inn myndband í keppnina af Sesselju að syngja lagið Four Five Seconds.
 
Kristín vinnur í Hljómahöll og kemur Sesselja oft í heimsókn í vinnuna til mömmu sinnar og tekur lagið í karaókí-klefanum. „Hún fer alltaf beint inn í klefann og fær upptöku af söngnum sínum svo senda með tölvupósti og getur þá skoðað myndböndin sjálf. Þegar hún er að æfa ný lög þá gefst hún aldrei upp á að ná þeim fullkomlega. Þetta eru mjög góðar græjur í Hljómahöll og það hefur alveg örugglega haft eitthvað með það að segja að hún komst í úrslit,“ segir Kristín. Fjölskyldan fékk pínu sjokk þegar ljóst var að Sesselja hefði komist í úrslit. „Hún hefur lítið sungið opinberlega áður, fyrir utan tvö skipti á jólaskemmtunum í skólanum. Það var samt ekkert mál fyrir hana að syngja fyrir framan dómarana og ég hef reyndar aldrei heyrt hana syngja eins vel og þá. Það féllu nokkur tár meðal dómaranna.“
 
Að sögn Kristínar byrjaði Sesselja að syngja áður en hún lærði að tala og skreið að hljómflutningstækjum heimilisins og kveikti á og byrjaði svo að dilla sér og syngja með. Sesselja hefur ekki lært söng eða verið í kór, heldur æft sig heima og oft með systkinum sínum, þeim Aðalbjörgu Ósk, 7 ára Davíð Mána sem er 15 ára.
 
Sesselja á ekki langt að sækja sönghæfileikana því mamma hennar er lærð söngkona og lék eitt aðalhlutverkanna í Bugsy Malone þegar hún var 14 ára. Síðasta laugardag söng Sesselja fyrir fyrir framan dómara Jólastjörnunnar og upptökuvélar og gekk vel eins og áður sagði. „Við verðum samt alltaf að hafa í huga að hún er bara níu ára og það var stórsigur fyrir hana að komast í úrslit í keppninni. Aðalatriðið er að hún njóti þess að vera með.“ 
 
Næstu fimmtudagskvöld verða þættirnir Jólastjarna Björgvins Halldórssonar á Stöð 2 og verður sá fyrsti í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024