Undirbúningur fyrir Sandgerðisdaga á fullu
Undirbúningur fyrir Sandgerðisdaga stendur nú sem hæst en Sandgerðisdagar verða haldnir hátíðlegir 27. til 30. ágúst nk. Sandgerðisdagar hafa verið vaxandi og í fyrra var þátttaka Sandgerðinga og gesta þeirra mjög góð. Nú er verið að móta dagskrá fyrir hátíðina en í allt sumar hafa dagskrárliðir verið að streyma inn til framkvæmdahóps daganna
Sandgerðisdagar eru hátíð fjölskyldunnar, segir á vef Sandgerðisdaga. Markmiðið er að fjölskyldur og vinir komi saman, taki þátt og njóti þess sem er í boði. Vegna þess ástands sem ríkt hefur í þjóðfélaginu verða Sandgerðisdagar 2009 með talsvert öðrum blæ en verið hefur á undanförnum árum. Meira verður sótt til heimamanna um þátttöku og skemmtilegheit og áhersla lögð á heimatilbúin atriði. Það má því segja að nú þurfi allir sem einn að leggjast á árar við hátíðarhöldin.
„Við hvetjum alla til að hjálpast að við að gera Sandgerðisdaga 2009 að ógleymanlegri skemmtun. Ef þú hefur góða hugmynd, vilt syngja, dansa eða vera með aðra uppákomu þá hikaðu ekki við að hafa samband. Á Sandgerðisdögum gefast ótal tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Við leggjum áherslu á að gamlir og nýir Sandgerðingar hittist, bjóði gestum í bæinn og eigi saman góða helgi. Til þess að svo megi verða þurfa allir að leggjast á eitt, fyrirtæki og einstaklingar,“ segir framkvæmdaráð Sandgerðisdaga á www.sandgerdisdagar.is.