Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Undirbúa regluleg tungumálakvöld
    Frá Lingua Café í Finnlandi. Verkefnið hefur verið í gangi þar í níu ár.
  • Undirbúa regluleg tungumálakvöld
    Sveindís Valdimarsdóttir verkefnastjóri íslenskunámskeiða hjá MSS.
Þriðjudagur 17. nóvember 2015 kl. 11:11

Undirbúa regluleg tungumálakvöld

Tilgangurinn að gefa fólki tækifæri til að æfa tungumálakunnáttu sína

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum undirbýr nú verkefnið Lingua Café að finnskri fyrirmynd. Að sögn Sveindísar Valdimarsdóttur, verkefnastjóra íslenskunámskeiða hjá MSS, er verkefnið einkar spennandi. „Eins og nafnið ber með sér, er hér um að ræða stefnumót á kaffihúsi, þar sem einstaklingar frá ólíkum löndum hittast yfir kaffibolla og velja sér ólík tungumál til tjáskipta.“ Tilgangur verkefnisins er að gefa fólki tækifæri til að æfa tungumálakunnáttu sína, auk þess sem það gefur fólki af ólíkum uppruna tækifæri til að hittast, kynnast og skiptast á skoðunum. Verkefnið felur meðal annars í sér að undirbúið verður auðvelt námsefni sem nýtist til að aðstoða fólk sem er að hefja nám í íslensku, hvetur það áfram og auðveldar því samskiptin. Löng hefð er fyrir verkefninu Lingua Café í Finnlandi en það hófst fyrst þar fyrir níu árum. Við undirbúninginn hjá MSS er stuðst við reynsluna þaðan.

„Okkur hjá MSS finnst þetta mjög spennandi verkefni. Við erum með stóran nemendahóp, íslenskra sem erlendra nemenda sem eru, eða hafa verið, í tungumálanámi hjá okkur. Margir þeirra vilja halda áfram að þjálfa þau tungumál sem þau hafa verið að læra og svo eru eflaust margir til viðbótar sem vilja kíkja á Lingua café til að hitta fólk og þjálfa tungumál sem eru annars ef til vill ekki mikið notuð svona dags daglega eins og spænsku, norsku eða ensku,“ segir Sveindís.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hluti af undirbúningi MSS fyrir tungumálakaffið er að leggja fyrir skoðanakönnun á næstu vikum og eru allir áhugasamir um verkefnið hvattir til að taka þátt. ,,Könnunina má fljótlega finna á heimasíðu MSS og það væri gaman ef sem flestir gæfu sér tíma til að taka þátt í henni. Hún á að geta gefið okkur einhvers konar mynd af því hvernig fólk lærir best tungumál og hvaða skoðanir fólk hefur yfirleitt á tungumálanámi. Það er alltaf gaman að taka þátt í verkefnum sem stuðla að því að nýta nám á praktískan hátt. Það er eitthvað sem við þurfum að gera mun meira af.“

Undirbúningur er nú í fullum gangi og er áætlað að verkefnið byrji á næsta ári. Það er hluti af Nordplus áætlun í menntamálum og er unnið í samstarfi við Finnland, Eistland, Lettland og Litháen.  

Ýmis verkefni eru unnin á Lingua Café til að auðvelda þátttakendum að þjálfa tungumálafærni sína.