Umhverfismerki Gerðaskóla og Gefnarborgar kynnt
Umhverfismerki Gerðaskóla og Gefnarborgar var kynnt á degi umhverfisins í Gerðaskóla en nemendur komu saman á sal í tilefni dagsins. Það var Lilja Bjarklind Kristinsdóttir, nemandi í 9. bekk sem teiknaði merkið og voru henni færðar þakkir fyrir það. Í frétt á heimsaíðu Garðs segir að merkið sé mjög táknrænt fyrir starf á sviði umhverfismála þar sem það sýnir sprota sem vex af vatni eða næringu. Þannig er það einnig með umhverfisfræðslu og skólastarf en leggja þarf góðan grunn og góð skilyrði skipta sköpum fyrir fræðslu og nám af öllu tagi. Gerðaskóli og Gefnarborg stefna að því að flagga Grænfánanum í vor og hafa skólarnir unnið markvisst að umhverfismálum undanfarið. Unnið er að því að útbúa námsefni og hugmyndabanka í útikennslu en skólarnir fengu skrúðgarðinn Bræðraborg afhentan frá sveitarfélaginu síðastliðinn vetur, til útikennslu og umhverfisfræðslu. Kristjana Kjartansdóttir formaður umhverfisnefndar Gerðaskóla segir garðinn bjóða uppá mikla möguleika á skemmtilegum og fræðandi verkefnum.
Skólarnir sendu einnig frá sér sameiginlega umhverfisstefnu og hafa umhverfissáttmálar verið undirritaðir af öllum nemendum og starfsfólki skólanna.
Umhverfismál eru viðamikill þáttur í starfi skólanna en á síðu Garðs segir ennfremur að markviss umhverfisfræðsla gefi nemendum og starfsfólki tækifæri til þess að tileinka sér umhverfisvænni lífsmáta og vera fyrirmyndir annarra í leiðinni.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson