Umboðsmaður Íslands með aðsetur í Bítlabænum
Uppgangurinn á Suðurnesjum hefur varla farið framhjá neinum þar sem fólksfjölgun hefur verið með ólíkindum síðustu ár. „Nýbúar“ flykkjast að og ljós kvikna í nýjum húsum um allt svæðið.
Meðal nýjustu íbúa Reykjanesbæjar er enginn annar en athafnaskáldið Einar Bárðarson, oft nefndur Umboðsmaður Íslands, en Einar hefur komið sér fyrir í lítilli og huggulegri íbúð í Innri Njarðvík ásamt eiginkonu sinni Áslaugu Thelmu Einarsdóttur og dóttur þeirra, Klöru Þorgbjörgu, sem er eins og hálfs árs. Um þessar mundir dvelja þau þó mestan part ársins í London þar sem Einar rekur plötufyrirtækið Believer og umboðsfyrirtæki sitt Mother. Ákvörðunin um að koma sér upp athvarfi var þó ekki langsótt því Áslaug, er fædd og uppalin í Keflavík. Einar er mikið á ferðinni, en gaf sér þó tíma til að hitta blaðamann Víkurfrétta að máli. Hann segir í fyrstu að það hafi í raun verið rökrétt að flytja Íslandsbækistöðvarnar til Reykjanesbæjar.
Mest vit í að búa í Reykjanesbæ
„Ég hugsaði oft um þetta þegar ég var að koma að utan,“ segir Einar. „Ég var nýlentur á flugvellinum og keyrði framhjá Reykjanesbæ og velti því fyrir mér hvort það væri ekki bara mest vit í að kaupa hér í staðinn fyrir að eiga eftir alla þessa keyrslu inn í Vesturbæ Reykjavíkur. Svo var ýmislegt annað sem spilaði inn í eins og hagstætt fasteignaverð og svo á Áslaug bæði fjölskyldu og vini hér og það er gaman fyrir þau að geta hitt þá litlu oftar.“ Hann segist í raun búast við því að ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu fari í auknum mæli að flytjast hingað suður eftir enda erfitt og dýrt að koma yfir sig þaki í núverandi aðstæðum á fasteignamarkaði.
Mörg járn í eldinum
Einar er, sem fyrr segir, lítið hér á landi þar sem hann er með ansi mörg járn í eldinum en fyrir utan að fara með mál Garðars Thors Cortes og Kiri Te Kanawa, sem héldu saman stórtónleika um helgina, stendur hann og hans fyrirtæki, Concert, fyrir jólatónleikum Björgvins Halldórssonar og verður hann auk þess með á sinni könnu stórtónleika Bubba Morthens á nýju ári.
Eins og það væri ekki nóg er hann einnig að fylgja fyrstu plötu söngsveitarinnar Luxor úr hlaði, sem og nýrri bók, Öll Trixin í bókinni, sem skrifuð er af Arnari Eggerti Thoroddssen og er nokkurs konar reynslusaga Einars úr árum hans í skemmtanabransanum þar sem lesendum gefst tækifæri á að skyggnast á bakvið tjöldin.
„Þetta er ekki leiðbeiningabók um það hvernig á að vera umboðsmaður, heldur frekar verið að fjalla á skemmtilegan hátt um bransann. Þó ég segi sjálfur frá er hún ansi fyndin og ekki síst á minn kostnað því ég tók ekki í mál að þetta yrði svona sjálfslhólsbók eins og þær eru margar.“
Bókin hefur fengið ágætis viðtökur sem og Luxor-platan sem hafði selst í rúmum 5000 eintökum frá heildsölu áður en desember rann upp og er ein söluhæsta platan það sem af er þessari jólatörn.
Umboðsmannastarfið full vinna
Aðspurður út í umboðsmannsstarfið og þann uppgang sem hefur verið í þeim geira segir Einar að hann og hans kynslóð hafi í raun verið brautryðjendur í því að gera umboðsmennsku og tónleikahald að fullri vinnu. „Þetta er vinna sem fer fram frá níu á morgnana og stendur yfirleitt fram á kvöld. Það gengur ekki að reyna að standa í þessu í og með annarri vinnu, á kvöldin eða um helgar.“
Blaðamann leikur forvitni á að vita álit Einars á þeirri ansi víðtæku skoðun að það sé auðvelt að „Meika’ða“ hér á landi og allt sem til þurfi sé góður umboðsmaður eða „plöggari“.
„Það er mikil nálægð í þessum bransa á Íslandi og þess vegna auðvelt að komast að, en ég er þeirrar skoðunar að umboðsmaðurinn sé aldrei betri en listamaðurinn sjálfur. Þó það sé auðvelt að vekja athygli á sér fyrst gengur það aldrei upp til lengdar ef hæfileikarnir fylgja ekki með. Sama nálægð og smæð markaðsins hefur það líka í för með sér að þú ert fljótur að brenna brýr og skemma fyrir þér ef þú ert að bjóða upp á eitthvað rusl.“
Gott starfsfólk gerir gæfumuninn
Mikið annríki er hjá Einari og það er mikið flakk á milli Íslands og Bretlands þar sem hann dvelst jafnan um viku í hverjum mánuði hér heima. Mæðgurnar koma kannski ekki eins oft heim, en eru þess í stað þeim mun lengur þegar þær koma. Þegar Einar er spurður út í annríkið segir hann að vissulega sé oft erfitt að hafa yfirsjón með öllu. „Ég er hins vegar svo heppinn að vera með gott samstarfsfólk sem ég deili verkefnum til. Þess vegna þarf ég ekki að skipta mér af öllum smáatriðum eins og hótelgistingu fyrir Garðar Thór þegar hann er að syngja í Singapúr. Ég einbeiti mér frekar t.d. að því að vera að semja um plötuútgáfur á nýjum mörkuðum og þess háttar.“ Einar hefur þrautreynt starfsfólk með sér úti í London og þess má geta að nýráðinn fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins vann í rúm 20 ár fyrir stórsjörnuna George Michael.
Gott að búa í fámenninu
Einar kann vel við sig á Suðurnesjum, en hann er ekki óvanur því að búa utan höfuðborgarsvæðisins þar sem hann er, eins og flestir vita, einn af frægustu sonum Selfoss. Hann fer fögrum orðum um smábæjarlífið og telur það að alast upp í fámennari bæjarfélögum geta hjálpað fólki að ná langt. „Ég er úr litlum bæ og mér finnst ég oft sjá að efnilegir krakkar eiga það frekar til að koðna niður í Reykjavík. Þau eiga auðveldara með að blómstra úti á landi og það er enn ein góð ástæða til þess að koma hingað,“ segir Einar, en hann hefur einnig komið sér fyrir í rólegu úthverfi í London.
Einar lýtur til þess að koma fjölskyldunni enn betur fyrir á næstunni. „Þessi íbúð sem við erum í núna er mjög heppileg. Hún var í réttri stærð og á réttu verði og laus þegar við vorum að leita, en við erum að spá í að stækka aðeins við okkur hér í bænum þegar fram í sækir. Við munum taka ákvörðun um það í upphafi næsta árs eða jafnvel eftir tvö ár, en það er klárt að það stóð aldrei til hjá okkur að búa erlendis til frambúðar.“
Frábær uppbygging á Suðurnesjum
Þrátt fyrir að hafa aðeins haft aðsetur í bænum í nokkra mánuði er hann vel með á nótunum varðandi málefni svæðisins og hrífst mjög af framgöngu forsvarsmanna Reykjanesbæjar.
„Ég er mjög hrifinn af því sem hefur verið að gerast í bænum undanfarin ár og það er mín skoðun að Reykvíkingar hafi skotið sig í fótinn þegar þau kusu Árna Sigfússon frá sér á sínum tíma. Hann hefur gert ótrúlega hluti hérna og lyft bænum á annað stig. Ég hef verið honum og öðrum hjá bænum innan handar með ýmislegt í gegnum tíðina eins og í hugmyndavinnu fyrir Poppminjasafn Íslands og Hljómahöllina, og svo hef ég unnið mikið með Ása í skipulagningu á tónlistaratriðum síðustu tvær Ljósanætur. Ég get svo gefið það upp að við erum að stefna að því að vera með tónlistaratriði af áður óþekktri stærð á næstu Ljósanótt. Það verður ekki endurkoma Led Zeppelin en eitthvað í áttina!“ segir Einar og hlær dátt.
Hann er einnig ánægður með hvernig hefur til tekist á gömlu varnarstöðinni á Vallarheiði og blæs á gagnrýnisraddir sem hafa verið háværar undanfarið.
„Það hefur verið frábær uppbygging í gangi þarna uppfrá og enn fleiri góðar hugmyndir eru að koma þannig að ég skil ekki þessa neikvæðni í garð þess sem þar hefur verið. Bara í fyrra haust var verið að skammast yfir því að þetta væri að verða draugarbær. Núna þegar þessi stórkostlega andlitslyfting hefur átt sér stað þá vildu allir hafa komist með puttana í þetta. Hið sanna er að það hafði engin áhuga á þessu fyrir 12 mánuðum. Ef venjulegt fasteignafélag hefði keypt svæðið eftir lögmálum markaðarinns þá hefði það fasteignafélag sett allar þessar íbúðir á markað á sama tíma til að fá sem mestan pening útúr fjárfestingunni. Það hefði kostað verðhrun á íbúðum á þessu svæði sem hefði verið skelfilegt fyrir þá sem hér búa. Það þarf að taka á svona málum með festu, Árni getur það og þorir.
Margir stjórnmálamenn láta því miður almenningsálit og skoðanakannanir snúa sér í hringi frá degi til dags. Þetta þekki ég úr mínum gamla heimabæ þar sem miðbæjarframkvæmdum er haldið í gíslingu útaf mótmælum og undirskriftalistum örfárra aðila.“
Einar segir að lokum að fjölskyldan áætli að koma sér enn betur fyrir í bænum þegar fram líða stundir. Hann segir þau þó ekki horfa allt of langt inn í framtíðina, „en ég ætla pottþétt að vera á staðnum þegar þeir vígja styttuna af Hljómum fyrir utan Stapann!“
Meðal nýjustu íbúa Reykjanesbæjar er enginn annar en athafnaskáldið Einar Bárðarson, oft nefndur Umboðsmaður Íslands, en Einar hefur komið sér fyrir í lítilli og huggulegri íbúð í Innri Njarðvík ásamt eiginkonu sinni Áslaugu Thelmu Einarsdóttur og dóttur þeirra, Klöru Þorgbjörgu, sem er eins og hálfs árs. Um þessar mundir dvelja þau þó mestan part ársins í London þar sem Einar rekur plötufyrirtækið Believer og umboðsfyrirtæki sitt Mother. Ákvörðunin um að koma sér upp athvarfi var þó ekki langsótt því Áslaug, er fædd og uppalin í Keflavík. Einar er mikið á ferðinni, en gaf sér þó tíma til að hitta blaðamann Víkurfrétta að máli. Hann segir í fyrstu að það hafi í raun verið rökrétt að flytja Íslandsbækistöðvarnar til Reykjanesbæjar.
Mest vit í að búa í Reykjanesbæ
„Ég hugsaði oft um þetta þegar ég var að koma að utan,“ segir Einar. „Ég var nýlentur á flugvellinum og keyrði framhjá Reykjanesbæ og velti því fyrir mér hvort það væri ekki bara mest vit í að kaupa hér í staðinn fyrir að eiga eftir alla þessa keyrslu inn í Vesturbæ Reykjavíkur. Svo var ýmislegt annað sem spilaði inn í eins og hagstætt fasteignaverð og svo á Áslaug bæði fjölskyldu og vini hér og það er gaman fyrir þau að geta hitt þá litlu oftar.“ Hann segist í raun búast við því að ungt fólk á höfuðborgarsvæðinu fari í auknum mæli að flytjast hingað suður eftir enda erfitt og dýrt að koma yfir sig þaki í núverandi aðstæðum á fasteignamarkaði.
Mörg járn í eldinum
Einar er, sem fyrr segir, lítið hér á landi þar sem hann er með ansi mörg járn í eldinum en fyrir utan að fara með mál Garðars Thors Cortes og Kiri Te Kanawa, sem héldu saman stórtónleika um helgina, stendur hann og hans fyrirtæki, Concert, fyrir jólatónleikum Björgvins Halldórssonar og verður hann auk þess með á sinni könnu stórtónleika Bubba Morthens á nýju ári.
Eins og það væri ekki nóg er hann einnig að fylgja fyrstu plötu söngsveitarinnar Luxor úr hlaði, sem og nýrri bók, Öll Trixin í bókinni, sem skrifuð er af Arnari Eggerti Thoroddssen og er nokkurs konar reynslusaga Einars úr árum hans í skemmtanabransanum þar sem lesendum gefst tækifæri á að skyggnast á bakvið tjöldin.
„Þetta er ekki leiðbeiningabók um það hvernig á að vera umboðsmaður, heldur frekar verið að fjalla á skemmtilegan hátt um bransann. Þó ég segi sjálfur frá er hún ansi fyndin og ekki síst á minn kostnað því ég tók ekki í mál að þetta yrði svona sjálfslhólsbók eins og þær eru margar.“
Bókin hefur fengið ágætis viðtökur sem og Luxor-platan sem hafði selst í rúmum 5000 eintökum frá heildsölu áður en desember rann upp og er ein söluhæsta platan það sem af er þessari jólatörn.
Umboðsmannastarfið full vinna
Aðspurður út í umboðsmannsstarfið og þann uppgang sem hefur verið í þeim geira segir Einar að hann og hans kynslóð hafi í raun verið brautryðjendur í því að gera umboðsmennsku og tónleikahald að fullri vinnu. „Þetta er vinna sem fer fram frá níu á morgnana og stendur yfirleitt fram á kvöld. Það gengur ekki að reyna að standa í þessu í og með annarri vinnu, á kvöldin eða um helgar.“
Blaðamann leikur forvitni á að vita álit Einars á þeirri ansi víðtæku skoðun að það sé auðvelt að „Meika’ða“ hér á landi og allt sem til þurfi sé góður umboðsmaður eða „plöggari“.
„Það er mikil nálægð í þessum bransa á Íslandi og þess vegna auðvelt að komast að, en ég er þeirrar skoðunar að umboðsmaðurinn sé aldrei betri en listamaðurinn sjálfur. Þó það sé auðvelt að vekja athygli á sér fyrst gengur það aldrei upp til lengdar ef hæfileikarnir fylgja ekki með. Sama nálægð og smæð markaðsins hefur það líka í för með sér að þú ert fljótur að brenna brýr og skemma fyrir þér ef þú ert að bjóða upp á eitthvað rusl.“
Gott starfsfólk gerir gæfumuninn
Mikið annríki er hjá Einari og það er mikið flakk á milli Íslands og Bretlands þar sem hann dvelst jafnan um viku í hverjum mánuði hér heima. Mæðgurnar koma kannski ekki eins oft heim, en eru þess í stað þeim mun lengur þegar þær koma. Þegar Einar er spurður út í annríkið segir hann að vissulega sé oft erfitt að hafa yfirsjón með öllu. „Ég er hins vegar svo heppinn að vera með gott samstarfsfólk sem ég deili verkefnum til. Þess vegna þarf ég ekki að skipta mér af öllum smáatriðum eins og hótelgistingu fyrir Garðar Thór þegar hann er að syngja í Singapúr. Ég einbeiti mér frekar t.d. að því að vera að semja um plötuútgáfur á nýjum mörkuðum og þess háttar.“ Einar hefur þrautreynt starfsfólk með sér úti í London og þess má geta að nýráðinn fjölmiðlafulltrúi fyrirtækisins vann í rúm 20 ár fyrir stórsjörnuna George Michael.
Gott að búa í fámenninu
Einar kann vel við sig á Suðurnesjum, en hann er ekki óvanur því að búa utan höfuðborgarsvæðisins þar sem hann er, eins og flestir vita, einn af frægustu sonum Selfoss. Hann fer fögrum orðum um smábæjarlífið og telur það að alast upp í fámennari bæjarfélögum geta hjálpað fólki að ná langt. „Ég er úr litlum bæ og mér finnst ég oft sjá að efnilegir krakkar eiga það frekar til að koðna niður í Reykjavík. Þau eiga auðveldara með að blómstra úti á landi og það er enn ein góð ástæða til þess að koma hingað,“ segir Einar, en hann hefur einnig komið sér fyrir í rólegu úthverfi í London.
Einar lýtur til þess að koma fjölskyldunni enn betur fyrir á næstunni. „Þessi íbúð sem við erum í núna er mjög heppileg. Hún var í réttri stærð og á réttu verði og laus þegar við vorum að leita, en við erum að spá í að stækka aðeins við okkur hér í bænum þegar fram í sækir. Við munum taka ákvörðun um það í upphafi næsta árs eða jafnvel eftir tvö ár, en það er klárt að það stóð aldrei til hjá okkur að búa erlendis til frambúðar.“
Frábær uppbygging á Suðurnesjum
Þrátt fyrir að hafa aðeins haft aðsetur í bænum í nokkra mánuði er hann vel með á nótunum varðandi málefni svæðisins og hrífst mjög af framgöngu forsvarsmanna Reykjanesbæjar.
„Ég er mjög hrifinn af því sem hefur verið að gerast í bænum undanfarin ár og það er mín skoðun að Reykvíkingar hafi skotið sig í fótinn þegar þau kusu Árna Sigfússon frá sér á sínum tíma. Hann hefur gert ótrúlega hluti hérna og lyft bænum á annað stig. Ég hef verið honum og öðrum hjá bænum innan handar með ýmislegt í gegnum tíðina eins og í hugmyndavinnu fyrir Poppminjasafn Íslands og Hljómahöllina, og svo hef ég unnið mikið með Ása í skipulagningu á tónlistaratriðum síðustu tvær Ljósanætur. Ég get svo gefið það upp að við erum að stefna að því að vera með tónlistaratriði af áður óþekktri stærð á næstu Ljósanótt. Það verður ekki endurkoma Led Zeppelin en eitthvað í áttina!“ segir Einar og hlær dátt.
Hann er einnig ánægður með hvernig hefur til tekist á gömlu varnarstöðinni á Vallarheiði og blæs á gagnrýnisraddir sem hafa verið háværar undanfarið.
„Það hefur verið frábær uppbygging í gangi þarna uppfrá og enn fleiri góðar hugmyndir eru að koma þannig að ég skil ekki þessa neikvæðni í garð þess sem þar hefur verið. Bara í fyrra haust var verið að skammast yfir því að þetta væri að verða draugarbær. Núna þegar þessi stórkostlega andlitslyfting hefur átt sér stað þá vildu allir hafa komist með puttana í þetta. Hið sanna er að það hafði engin áhuga á þessu fyrir 12 mánuðum. Ef venjulegt fasteignafélag hefði keypt svæðið eftir lögmálum markaðarinns þá hefði það fasteignafélag sett allar þessar íbúðir á markað á sama tíma til að fá sem mestan pening útúr fjárfestingunni. Það hefði kostað verðhrun á íbúðum á þessu svæði sem hefði verið skelfilegt fyrir þá sem hér búa. Það þarf að taka á svona málum með festu, Árni getur það og þorir.
Margir stjórnmálamenn láta því miður almenningsálit og skoðanakannanir snúa sér í hringi frá degi til dags. Þetta þekki ég úr mínum gamla heimabæ þar sem miðbæjarframkvæmdum er haldið í gíslingu útaf mótmælum og undirskriftalistum örfárra aðila.“
Einar segir að lokum að fjölskyldan áætli að koma sér enn betur fyrir í bænum þegar fram líða stundir. Hann segir þau þó ekki horfa allt of langt inn í framtíðina, „en ég ætla pottþétt að vera á staðnum þegar þeir vígja styttuna af Hljómum fyrir utan Stapann!“