Um 700 manns í árlegri friðargöngu
Árleg friðarganga Grindvíkinga fór fram í morgun í blíðskaparveðri. Friðargangan er samstarfsverkefni skólastofnanna í Grindavík en markmið með henni er að efla samkennd og samhug með því að boða jákvæðni, gleði og kærleika í samfélaginu. Allir nemendur grunnskólanna og flestir nemendur á leikskólunum mættu, ásamt starfsfólki, fjölmörgum foreldrum og góðum gestum. Áætla má að um 700 manns hafi tekið þátt í Friðargöngunni.
Nemendur gengu frá leikskólum og grunnskólum að Landsbankatúninu en elstu nemendurnir aðstoðuðu við að leiða leikskólakrakkana og yngstu nemendur grunnskólans. Þá röðuðu nemendur sér í kærleikshringi á túninu við Landsbankann, sungin voru jólalög sem nemendurnir höfðu valið sjálfir. Einnig flutti séra Elínborg Gísladóttir hugvekju þar sem kærleikurinn var í aðalhlutverki.
Slökkt var á ljósastaurum í bænum meðan á göngunni og athöfninni stóð en nemendur mættu flestir með vasaljós sem skapaði skemmtilega stemmningu. Svo þegar komið var aftur í skólana fengu nemendur heitt kakó. Að sögn aðstandenda og þátttakenda var um að ræða sannarlega yndislega stund sem stuðlaði að samkennd, hlýhug og kærleika í aðdraganda jólanna.