Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

U2 messa á sunnudaginn
Miðvikudagur 16. mars 2011 kl. 09:15

U2 messa á sunnudaginn

Kór Keflavíkurkirkju hefur gert víðreist að undanförnu með U2 messu sem fyrst var flutt í Keflavíkurkirkju fyrir fullu húsi í lok síðasta árs. Messan hefur vakið mikla athygli en sú síðasta verður flutt í Keflavíkurkirkju nk. sunnudagskvöld kl. 20:00.

Þar syngur kórinn lög trúarlegs eðlis eftir hljómsveitina kunnu U2 með Sigurð Ingimundarson, kaptein úr Hjálpræðishernum og stórsöngvara, í fararbroddi.

Um hljóðfæraleikinn sjá Aðalsteinn Aðalsteinsson á gítar, Þorvaldur Halldórsson á trommur og Sólmundur Friðriksson á bassa. Þýðendur textanna eru séra Gunnar Sigurjónsson og Guðlaugur Gunnarsson, en stjórnandi er Arnór B. Vilbergsson, organisti Keflavíkurkirkju.

U2 messan hefur verið flutt í Hveragerðiskirkju, Selfosskirkju, Grindavíkurkirkju og safnaðarheimili Sandgerðis við gríðarlega góðar undirtektir og aðsókn.

Meðal efnis sem hópurinn flytur eru lögin: Gloria, Ef guð mér engla sendi (If God will send his Angels), Kom frelsa mig (Love rescue me), Eitt (One) og Það er ástin ein (In the name of Love), en alls eru lögin átta talsins, þar af sex með þátttöku kórsins.

Messan í Keflavíkurkirkju verður með skemmtilegri rokkumgjörð. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir að hlýða á og skemmta sér í kirkjunni.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024