Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Týndi rúgbrauði í hrauninu á Heimaey
Laugardagur 22. október 2016 kl. 10:55

Týndi rúgbrauði í hrauninu á Heimaey

- Ásmundur Friðriksson, 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokks

Hvers vegna ákvaðst þú að fara í framboð?
Á tímamótum í lífi mínu sumarið 2012 var skorað á mig að bjóða mig fram í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Eftir nokkra íhugun ákvað ég að láta slag standa og flaug inn á þing í kosningunum í apríl 2013, svo framhaldið var ráðið.

Hvað vilt þú sjá gerast á Suðurnesjum á næsta kjörtímabili?
Ég vil sjá samfélagið fyllast af sjálfstrausti. Eftir nokkur þung ár drjúpa tækifærin af hverju strái á Suðurnesjum og ég veit að hér eru mestu vaxtatækifæri landsins alls. Hér skortir fólk til starfa og á næstu árum vantar hér mikið af fólki til að svara þeirri eftirspurn sem atvinnulífið kallar á. Við verðum að efla heilbrigðisþjónustuna, styrkja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja svo hún gangi í takt við aukinn fjölda íbúa og mikla fjölgun á vinnumarkaði. Auka heilsu og heilbrigði eldra fólks á skipulegan hátt, bæta í heimaþjónustu og fjölga hjúkrunarrýmum.

Styrkja innviði, klára að tvöfalda Reykjanesbrautina, endurbyggja Grindavíkurveg, lagfæra Garðveg og fleiri vegi, ganga í takt við „Stopp, hingað og ekki lengra.“ Ljúka við fjármögnun og uppbyggingu viðlegukants og þjónustuvega í Helguvík. Standa við gefin loforð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ná til fleiri ferðamanna sem koma til landsins en Reykjanesið er eitt best varðveitta leyndarmál ferðaþjónustunnar en með tilkomu Reykjanes Geopark og aukningu í gistimöguleikum á svæðinu á ferðaþjónustan á Suðurnesjum mikið inni með stærsta segulinn á landinu, Bláa lónið í hjarta Reykjaness og flugstöðina á Miðnesheiði.

Með tugmilljarða uppbyggingu á flugvallarsvæðinu, hugmyndum um björgunarmiðstöð á Ásbrú, fjölgun atvinnutækifæra með nýsköpun, gagnaverum og fjölda hátæknifyrirtækja verða Suðurnes land tækifæranna á næstu árum og áratugum.

Hverja telur þú möguleika þíns framboðslista í kjördæminu í kosningunum í lok mánaðarins?
Mjög góða, málefnastaðan er góð. Við höfum skilað hallalausum fjárlögum í þrjú ár, verðbólga er undir væntingum Seðlabankans, við höfum lagt af vörugjöld og tolla af flestum vöruflokkum, laun hafa hækkað og kaupmáttur vaxið mikið og á sama tíma mælist jöfnuður mestur á Íslandi. Við höfum því góðan grunn til að byggja á, samtaka frambjóðendur sem áfram vilja bæta hag fólksins í landinu. Við erum á réttri leið og ætlum að halda fjórum þingmönnum.

Hvað færð þú þér oftast í morgunmat? Hafragraut.

Hvar lætur þú klippa þig? Hjá Kjartani á Selfossi, Kamillu í Garðinum eða hjá Ágústi Friðrikssyni í Reykjavík, allt eftir því hvernig stendur á.

Uppáhalds útvarpsmaður? Þorgeir Ástvaldsson síðustu 30 árin eða svo.

Hver væri titill ævisögu þinnar? Er búinn að gefa út tvær minningabækur um æsku mína og samferðafólk en lokatitillinn gæti verið „56 módelið klikkar ekki.“

Innanlandsflug til Keflavíkurflugvallar? Ég vil innanlandsflugið í Reykjavík en ef það fer þaðan er Keflavík eini kosturinn.

Fallegasti staður á Suðurnesjum? Eldvörp.

Hver er besta ákvörðun sem þú hefur tekið? Að hætta að neyta áfengis.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í?
Árið 1986 þegar ég bakaði rúgbrauð í hrauninu á Heimaey fyrir Þorstein vin minn Pálsson sem kom með alla fjármálaráðherra Norðurlanda til Eyja. Við vorum klárir með veislu á nýja hrauninu, uppdekkuð borð, síld, vín og aðrar veitingar. Þegar ráðherrarnir komu ætluðum við að grafa upp brauðið en fundum ekki. Grófum síðan langan skurð í ca 30 mínútur í 60 gráðu heitum skurðunum og litum frekar illa út, pungsveittir af ógurlegum hita og svartir af vikurryki þegar loks fannst dollan með brauðinu, en þá var búið að redda niðurskornu rúgbrauði úr bakaríinu. Frekar heit og þungbúin staða.

Dagblað eða net á morgnana? Morgunblaðið.

Sameinuð sveitarfélög á Suðurnesjum eða áfram eins og nú? Þessa umræðu þarf að þroska, skoða möguleikana, leggja fram kosti og galla. Leggja undir íbúana til ákvörðunar, þar liggur valdið sem við förum eftir.