Tvö árshátíðarleikrit í Grunnskólanum í Grindavík
Hin fjögur fræknu og Hakuna Matata.
Í gær var frumsýning beggja árshátíðarleikritanna sem nemendur Grunnskólans í Grindavík hafa æft af kappi fyrir. Í ár verður í fyrsta skipti sem tvö leikrit eru sýnd á unglingastigi skólans. Unglingastiginu hefur verið skipt upp í tvo hópa, þann yngri sem samanstendur af 7. og 8. bekk og þeim eldri sem krakkar í 9. og 10. bekk eru í. Yngri hópurinn leikur Hin fjögur fræknu sem byggt er á samnefndum bókum og eldra leikritið leikur Hakuna Matata. Leikstjórar beggja leikritanna eru þau Bjarni Þórarinn Hallfreðsson og Hanna Dís Gestsdóttir. Þetta kemur fram á vefnum grindavík.net.
Í umfjöllun Víkurfrétta um árshátíðarleikrit Heiðarskóla í Reykjanesbæ, Öskubusku, kom fram að sá skóli væri eini grunnskólinn á Suðurnesjum með leiklist sem valfag. Það er alls kostar ekki rétt og leiðréttist hér með.
Hin fjögur fræknu er byggt á bókum eftir franskan og belgískan höfund. Bókunum svipar til hinna frægu Tinna bóka og er þetta tiltekna leikrit byggt á bókinni Hin Fjögur Fræknu og Harðstjórinn. Bókin segir frá þeim Lastík, Doksa, Dínu og Búffa en þau fjögur eru bestu vinir og hafa lent í hinum ýmsu ævintýrum. Í þessu ævintýri hefur sá leiðinlegi atburður gerst að Alexander, prins af Hleifalandi hefur verið rænt og vilja þau finna hinn unga prins.
Hakuna Matata er óhefðbundið og frumsamið Disney leikrit þar sem hinar ýmsu Disney persónur eru fengnar að láni. Flestum Disney persónunum hefur verið boðið í afmæli skapara þeirra, Walt Disney en þau lenda í hremmingum á leiðinni og þurfa á kljást við þær. Uppáhalds persónur margra er að finna í leikritinu eins og Vidda og Bósa, Tímon og Púmba, Öskubusku, Max son Guffa Grín og fleiri stórkostlega karaktera.
Bæjarsýningar verða í kvöld, 25. mars, klukkan 20:00 og 26. mars klukkan 17:00. Grindvíkingar eru sérstaklega hvattir til að láta sjá sig.