Tveir vinningshafar af tíu í teiknisamkeppni MS úr Gerðaskóla
Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, tilkynnti á dögunum úrslit í teiknisamkeppni Alþjóðalega skólamjólkurdagsins, sem haldinn er hátíðlegur síðasta miðvikudag í september ár hvert. Eins og undanfarin ár barst mikill fjöldi teikninga í samkeppnina, sem Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins stendur að hér á landi.
Tíu nemendum eru veittar viðurkenningar fyrir teikningar sínar að loknu vali á úrtaki mynda sem lagt er fyrir menntamálaráðherra, sem jafnframt er formaður dómnefndar.
Nemendur í 4. bekk Gerðaskóla unnu þessar myndir í myndmennt hjá Ragnhildi myndmenntakennara og náðu þeim frábæra árangri að tveir nemendur af tíu vinningshöfum koma úr Gerðaskóla. Það eru þeir Kristinn Ingi Kristjánsson og Sigmar Marijón Friðriksson. Hver verðlaunahafanna fær 25 þúsund krónur, sem renna óskiptar í bekkjarsjóð.