Tvær stórar tónlistarhátíðir haldnar í sumar
Það verður svo sannarlega nóg að gerast í tónlistarlífinu í Reykjanesbæ í sumar. Tvær stórar tónlistarhátíðir munu fara fram á tæpum mánuði í bæjarfélaginu. Þann 5.-9. júní fer fram hátíðin Keflavik Music Festival og fer hátíðin fram á helstu skemmtistöðum Reykjanesbæjar og einnig í Keflavíkurkirkju og Reykjaneshöll. Nú þegar hafa fjölmargir þekktir innlendir sem erlendir tónlistarmenn boðað komu sína.
„Undirbúningurinn fyrir hátíðina hefur gengið mjög vel. Það hefur verið mjög mikið að gera og við sofum lítið þessa dagana,“ segir Ólafur Geir Jónsson sem undirbýr hátíðina ásamt Pálma Erni Erlingssyni. „Miðasalan hefur gengið vonum framar og við erum farnir að sjá fram á að þetta verði ein stærsta tónlistarhátíð landsins. Bærinn á eftir að iða af lífi,“ segir Pálmi.
Í lok júní fer fram All Tomorrow Parties hátíðin sem fram fer á Ásbrú. Þar mun meðal annars Nick Cave koma fram. Hátíðin fer fram í samstarfi við aðra samnefnda hátíð sem haldin er í Bretlandi og víðar. Búast má við talsverðum fjölda erlendra tónlistaráhugamanna á þá hátíð.