Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tvær kvennasýningar í Duus safnahúsi
Þriðjudagur 23. júní 2015 kl. 10:56

Tvær kvennasýningar í Duus safnahúsi

Konur í sögu bæjarins og Textíll í höndum kvenna

Konur eru í aðalhlutverki á þeim sýningum sem nú standa yfir í Gryfju og Bíósal Duus safnahúsa. Sýningarnar bera nöfnin Klaustursaumur og Filmuprjón - textíll í höndum kvenna og Konur í sögubæjarins. Á þeirri síðarnefndu er skyggnst inn í sagnaheim Mörtu Valgerðar Jónsdóttur.

Báðar sýningarnar eru settar upp í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna 19. júní.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á sýningunni Klaustursaumur og Filmuprjón eru textílverk úr safneign Listasafns Reykjanesbæjar, sýnishorn af hannyrðum kvenna sem búsettar eru á svæðinu og hannyrðir í eigu Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Nafn sýningarinnar vísar í breitt svið þeirra verka sem sjá má á sýningunni og má þar telja annars vegar aldagamla útsaumsaðferð og hins vegar nýlegt listaverk sem samanstendur af prjónuðum filmum. Þó flokka megi öll verk sýningarinnar sem textílverk fela þau í sér afar ólíkar nálganir, bæði hvað varðar hugmyndir, efnisval og úrvinnsluaðferðir, enda byggja þau ýmist á handverki, myndlist eða hönnun. Oft skarast þó mörkin milli þessarra ólíku þátta og útkoman getur komið skemmtilega á óvart, að því er fram kemur í lýsingu. 

Sýningarstjóri er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Konur í sögu bæjarins er sumarsýning Byggðasafns Reykjanesbæjar og sýnir brot úr sagnaþáttum Mörtu Valgerðar Jónsdóttur.
 
Á sýningunni er gengið um þorpið Keflavík á fyrstu áratugum 20. aldar í fylgd Mörtu Valgerðar. Hún hafði þann hátt á að fara hús úr húsi og segja frá íbúunum eins og þeir komu henni fyrir sjónir í minningunni. Hún segir frá vinnu, áhugamálum, heilsu, útliti, persónuleika og atburðum í lífi þessa fólks. Afraksturinn er fjölbreyttur og sýnir þverskurð af samfélaginu en Marta hafði einstakt lag á að lýsa samferðafólki sínum með lifandi og fjölbreyttum hætti. Marta skrifaði rúmlega eitt hundrað greinar í tímaritið Faxa á árunum 1945-1969 og gefa þær ómetanlegt innsýn í þessa áhugaverðu sögu og ekki síðst á þátt kvenna í mótun hennar. 
 
Sýningarstjóri er Sigrún Ásta Jónsdóttir.
 
Sýningarnar standa til 23. ágúst og er aðgangur ókeypis. Duus safnahús er opið kl. 12:00 til 17:00 alla daga.