Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 10. desember 1998 kl. 09:38

TVÆR FRUMSÝNINGAR Á NÆSTUNNI

Nú fyrir stuttu lauk sýningum á leikritinu Máttarstólpar þjóðfélagsins eftir Henrik Ibsen í leikstjórn og þýðingu Huldu Ólafsdóttur. Því miður sáu allt of fáir þá sýningu þrátt fyrir þá frábæru gagnrýni og umfjöllun sem verkið fékk bæði í fjölmiðlum og hjá þeim sem sáu. En leikfélagið lætur ekki deigan síga þótt á móti blási og mun nú á aðventunni frumsýna tvö leikrit. Unglingadeildin frumsýnir 12. desember leikritið um Litlu stúlkuna með eldspýturnar sem Hulda Ólafsdóttir hefur skrifað. Hún leikstýrir einnig verkinu og er þetta tíunda uppsetning hennar hjá LK. Æfingar hafa staðið yfir undanfarnar vikur og alls taka um 20 börn og unglingar þátt í sýningunni. Aldrei áður hefur þessi fallega saga sem allir þekkja verið sett á svið hér á landi svo vitað sé, svo þetta verður landsfrumsýning hér í Reykjanesbæ. Jólasería er verk sem hefur að geyma tvo stutta leikþætti og eina jólasögu. Annar leikþátturinn er Sagan um Beikon og Skinku eftir Keflvíkinginn Júlíus Guðmundsson. Leikarar eru Ómar Ólafsson og Guðný Kristjánsdóttir. Hinn leikþátturinn heitir Í jólaösinni og er m.a. eftir annan Keflvíking Bjarna Gunnarsson. Leikarar eru Jón Marínó Sigurðsson, Sigurður Sigurþórsson og Davíð Guðbrandsson. Bjarni Gunnarsson mun síðan lesa litla jólasögu í lokin. Jólaserían verður frumsýnd þann 11. desember kl. 21:00. Það er von okkar félaga í LK að bæjarbúar sýni þessum uppsetningum okkar áhuga og sjái sér fært að skreppa í leikhús og eiga notalega stund. Sjáumst í Frumleikhúsinu. Félagar í Leikfélagi Keflavíkur
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024