Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Tuttugu ára afmæli Þjóðhátíðarlags sem Keflvíkingur samdi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 4. ágúst 2023 kl. 06:06

Tuttugu ára afmæli Þjóðhátíðarlags sem Keflvíkingur samdi

„Ég samdi lagið að mestu árið 2001, textinn fæddist stuttu síðar og lagið fór í keppnina um Þjóðhátíðarlagið árið 2002 en vann þó ekki fyrr en 2003,“ segir Keflvíkingurinn Gunnar Ingi Guðmundsson sem fagnar tuttugu ára afmæli sigurlags síns í keppninni um Þjóðhátíðarlagið.

Gunnar lýsti hvernig lagið varð til. „Ég var eitthvað að leika mér með kassagítarinn upp í sófa, var með einhvern hljómagang og fann fljótlega laglínu við sem mér fannst grípandi. Ég tók upp ágætist demó af laginu og sendi á Ellert Rúnarsson félaga minn sem þá bjó í Danmörku. Hann kom með nokkrar tillögur af texta sem mér leist ekkert sérstaklega á en svo kom þessi flotti Þjóðhátíðartexti. Lagið heitir Draumur um Þjóðhátíð.

Ég tók lagið upp og setti í keppnina árið 2002 en það fékk ekki brautargengi þá. Ég setti lagið því ofan í skúffu og átti ekki von á að það myndi neitt gera en fékk svo óvænt símtal tæpu ári síðar. Þetta var aðili úr Þjóðhátíðarnefnd sem spurði hvort ég væri ekki til í að setja lagið aftur í keppnina, þau mundu eftir laginu frá árinu áður og þar sem ekkert lag var nægjanlega sterkt að þeirra mati fyrir keppnina árið 2003 vildu þau fá mitt lag aftur inn. Ég var að sjálfsögðu til í það, setti lagið inn og það vann. Það var hljómsveitin Skítamórall sem útsetti lagið og flutti á Þjóðhátíðinni og ég neita því ekki, það var mjög gaman að heyra lagið oft spilað í útvarpinu á þessum tíma. Lagið er ósköp venjulegt sumar popplag með góðu viðlagi og er ennþá vinsælt, er t.d. á yfir 300 lagalistum á Spotify. Ég hefði auðvitað átt að drífa mig á Þjóðhátíðina þetta árið og verða vitni að frumflutningnum á föstudagskvöldinu en ég hef aldrei farið á Þjóðhátíð. Ég hef ýmist verið að vinna eða einhvers staðar að spila, svo fannst mér líka skemmtilegra að sækja böll í Miðgarði í Skagafirði um verslunarmannahelgina. Annars sakna ég þessarar lagakeppni með Þjóðhátíðarlagið, hún gaf laga- og textahöfundum tækifæri á að koma sér á framfæri.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Gunnar hefur samið talsvert af tónlist síðan hann samdi þetta Þjóðhátíðarlag og talsvert fyrir aðra listamenn, árið 2021 hóf hann samstarf við söngkonuna Rakel Pálsdóttur og gáfu þau út jólaplötuna Með jólin í hjarta mér sem kom út árið 2022 og var plata vikunnar á Rás 2 í desember í fyrra.

Eftir að hafa spilað í hinum og þessum ballhljómsveitum sagði Gunnar Ingi skilið við þann bransa og skráði sig í nám við Berklee College of Music í Boston árið 2016. „Ég fór að læra lagasmíðar og kvikmyndatónsmíðar en það er sú tónlist sem ég hef alltaf haft mest gaman af. Ég er um þessar mundir að leggja lokahönd á nýja plötu sem ber heitið Eyðibýli og kemur út 1. september. Á plötunni verða tónverk í dramatískum kvikmyndastíl. Ég á mér draum um að fá að semja tónlist fyrir kvikmyndir/þætti í framtíðinni, það væri gaman,“ sagði Gunnar að lokum.


Lagið Draumur um Þjóðhátið má heyra í spilaranum hér að neðan.