Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Tuttugasta jólaboð Sossu
  • Tuttugasta jólaboð Sossu
Föstudagur 11. desember 2015 kl. 10:32

Tuttugasta jólaboð Sossu

– Jólaboð á vinnustofu Sossu

Listmálarinn Sossa sýnir ný málverk laugardaginn 12. desember næstkomandi á árlegu jólaboði á vinnustofu sinni. Þetta er í tuttugasta sinn sem hún býður fólki á vinnustofu sína í aðdraganda jólanna, þar sem hægt verður að skoða nýjustu verk hennar og njóta léttra veitinga í notalegu umhverfi. Gestir hennar í ár verða Svavar Knútur sem mun spila og syngja fyrir gesti og Anton Helgi Jónsson, handahafi Ljóðstafsins árið 2013, sem mun lesa úr ljóðum sínum.

Síðustu málverkasýningar Sossu hafa verið á alþjóðlega tvíæringnum í Peking sem fram fór í september og í Holbæk í Danmörku. Jólaboðið verður síðasta sýning hennar á Íslandi um sinn, en í byrjun næsta árs verða verk hennar meðal annars til sýnis á Art Apart Fair sýningunni í Singapore.

Sossa er fædd í Keflavík og hefur unnið sem myndlistamaður frá 1984. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem grafiker frá Skolen for Brugskunst í Kaupmannahöfn 1984 og MFA í málaralist frá Tufts University og School of the Museum of Fine Arts í Boston 1993. Auk sýninga á Íslandi hefur Sossa sýnt til fjölda ára bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum, en lengst af og árlega í Kaupmannahöfn frá 1994 þar sem hún er einnig með vinnustofu. Haustið 2013 var Sossa Fulbright sendikennari í Seattle. Þá hlaut hún nafnbótina listamaður Reykjanesbæjar árið 1997.

Vinnustofa Sossu er á Mánagötu 1 í Reykjanesbæ og verður jólaboðið laugardaginn 12. desember kl. 14 - 22. Allir velkomnir.

Nánari upplýsingar á www.sossa.is



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024