Trúin gott veganesti inn í lífið
Marta Eiríksdóttir fermdist árið 1975 í Keflavíkurkirkju hjá séra Birni Jónssyni. Móðir hennar saumaði á hana fermingarfötin, dökkblátt flauelspils og vesti í stíl. Einnig saumaði hún rauða skyrtu, eins og sjá má á myndinni neðst á síðunni.
Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég rifja upp ferminguna mína er hátíðleikinn í kirkjunni og heima í veislunni. Veðrið var gott og sólin skein. Einnig þessi góða tilfinning um að nú væri ég komin í fullorðinna manna tölu. Það var alltaf sagt um fermingarbörnin þá.
Af hverju léstu ferma þig?
Ég lét ferma mig til að staðfesta skírnina, staðfesta trú mína á Jesú. Ég tók það mjög hátíðlega þrátt fyrir að vera líflegur unglingur. Ég hafði alist upp í hefðbundnu kristnu uppeldi, eins og var sjálfsagt mál þá. Lærði Faðir vorið hjá mömmu minni, Biblíusögur í skólanum og söng í barnakór Keflavíkurkirkju. Þetta allt tengdi mig vel við trúna og var gott veganesti inn í líf mitt. Mér fannst ég aldrei ein.
Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?
Við lásum um Jesú og lærðum utanbókar Trúarjátninguna og fleira. Flestir voru búnir að læra Faðir vorið heima hjá sér eða í kirkju. Ég man að við þurftum að lesa og læra margt fyrir ferminguna, sumt utanbókar eins og var algengt á þeim árum. Séra Björn Jónsson var góður við okkur og ég bar mikla virðingu fyrir honum. Mér fannst röddin hans alltaf hljóma svo fallega. Keflavíkurkirkja var mér eins og gamall góður vinur enda var ég sem barn oft í barnamessu.
Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?
Veislan var haldin heima hjá okkur. Foreldrar mínir buðu gestunum. Amma mín og báðir afar mínir mættu, frændur og frænkur og vinir foreldra minna. Ég man ekkert sérstaklega eftir að hafa boðið vinkonum mínum í veisluna mína eða farið til þeirra. Fullorðna fólkið stjórnaði þessu þá. Veislan og allur dagurinn var mjög hátíðlegur og eftirminnilegur. Mamma bakaði allt í veisluna og fékk örugglega einhverja hjálp hjá systrum sínum og vinkonum.
Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?
Já ég man vel eftir gullhringjunum tveimur sem ég fékk en þeir voru með stórum gimsteini sem var í tísku þá. Ég á ennþá lampann sem ég fékk. Foreldrar mínir gáfu mér voða smart rúm sem var hægt að breyta í sófa. Þau máluðu einnig herbergið mitt fyrir ferminguna en ég fékk að ráða litnum sem þótti mjög sterkur. Appelsínugulir og dökkbláir veggir á víxl. Svo man ég vel eftir því að hafa fengið 35.000 krónur.
Manstu eftir fermingarfötunum, eða klippingunni/greiðslunni?
Mamma saumaði á mig fermingarfötin, dökkblátt flauelspils og vesti í stíl. Einnig saumaði hún á mig rauða skyrtu. Ég svaf með rúllur í hárinu nóttina fyrir fermingardaginn. Gullý hárgreiðslukona greiddi mér svo snemma á fermingardaginn. Á þessum tíma söfnuðu stelpur síðu hári sem var klippt eftir ferminguna. Ég hlakkaði mikið til að láta klippa hárið mitt sem markaði þá nýtt upphaf eftir fermingu. Þá fannst mér ég loks fullorðin!
Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?
Já við hjónin förum í tvær veislur á þessu ári. Mér finnst það alltaf jafn gaman.