Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tríó Fókus með tónleika í Grindavíkurkirkju
Þriðjudagur 5. júlí 2016 kl. 06:00

Tríó Fókus með tónleika í Grindavíkurkirkju

Kammerhópurinn Tríó Fókus heldur tónleika í Grindavíkurkirkju mánudaginn 11. júlí, klukkan 20:00. Hópinn skipa þær Margrét Th. Hjaltested víóluleikari, Ingveldur Ýr, mezzosópran söngkona, og Guðríður St. Sigurðardóttir, píanóleikari.

Margrét á ættir sínar að rekja til Suðurnesja en móðir hennar, Svanhildur Elentínusdóttir, ólst upp í Keflavík. „Ég dvaldi oft hjá ömmu minni og afa, þeim Línu Sverrisdóttir og Einari Júlíussyni, sem og hjá Sigríði Elentínusdóttur, móðursystur minni. Eitt sumarið vann ég í frystihúsinu Heimi,“ segir Margrét sem er afar stolt af uppruna sínum. Hún kenndi einn vetur við Tónlistarskólann í Keflavík. Síðastliðin þrjátíu ár hefur Margrét búið og starfað í New York. Þar kennir hún og leikur reglulega með ýmsum hljómsveitum og kammerhópum, svo sem New Jersey Symphony Orchestra, the American Composers Orchestra, the Albany Symphony og the American Classical Orchestra. Auk þess hefur hún spilað á tónleikum víða um Bandaríkin, Asíu og Evrópu. Þá hefur hún komið fram og gert upptökur með Aretha Franklin, Tony Bennett, Paul McCartney, Björk og fjölda annarra. Hún hefur einnig komið fram í sjónvarpi, til dæmis í spjallþáttum Jay Leno og David Letterman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tónleikarnir í Grindavíkurkirkju á mánudag eru samvinnuverkefni Tríó Fókus við Félag íslenskra tónlistarmanna - klassíska deild FÍH með styrk frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Tríóið mun einnig halda tónleika í Bláu kirkjunni á Seyðisfirði þann 13. júlí. Á efnisskránni verða íslensk sönglög og klassísk tónverk eftir Brahms, Loeffler og Bernstein. Tónleikarnir taka klukkustund og aðgangseyrir er 2.000 krónur en 1.500 krónur fyrir eldri borgara, öryrkja og börn.