Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Treystir pabba fyrir jólamatnum
Fimmtudagur 26. desember 2013 kl. 11:05

Treystir pabba fyrir jólamatnum

Lárus Jóhannsson starfar sem kokkur í Noregi

Matreiðslumaðurinn Lárus Jóhannsson hefur dvalið í Noregi síðustu 12 ár en upphaflega stóð til að hann færi þangað yfir sumar til þess að vinna. „Það sumar er nú orðið ansi langt,“ segir Lárus sem hefur verið að vinna sem matreiðslumaður allt frá fyrsta degi í Noregi. Hann segir lífið í Noregi vera dásamlegt en hann er búsettur í Kristiansand í Suður-Noregi. Að sögn Lárusar er Noregur alls ekki ósvipað land og Ísland, fyrir utan það að sumrin eru örlítið betri hjá Norðmönnum.

Áhuginn á eldamennsku kviknaði á unga aldri hjá Lárusi og þá í gegnum föður hans og frænda. „Pabbi er dútlari í eldhúsinu og eldar svakalega góðan mat. Svo er Silli frændi kokkur og það ýtti undir áhugann.“ Lárus byrjaði að vinna við eldamennsku á Café Opera strax eftir grunnskóla og kláraði svo kokkanámið í Noregi. Lárus er duglegur í eldhúsinu utan vinnutíma, en hann og sonur hans eru sérstaklega duglegir að elda saman. Lárus hefur sérstakt dálæti á því að elda það sem dregið hefur verið úr sjó.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

En hvað er kokkurinn að elda um jólin? „Um jólin er alltaf farið heim til elsku Keflavíkur. Eins og fyrr segir er pabbi algjör snillingur við pottana og treysti ég honum alveg fyrir þessu á meðan ég læt fara vel um mig á sófanum.“

Lárus var svo elskulegur að deila með okkur glæsilegri uppskrift en þar reiðir hann fram safaríka andarbringu sem eflaust fer á diskinn hjá fjölmörgum yfir hátíðirnar.

Önd

„Öndina tek ég og sker í fituna og set hana á kalda pönnuna með fituna niður og steiki þar til hún er gullin. Set svo vel af smjöri, eys vel yfir með skeið, læt bringuna svo hvíla í smjörinu í u.þ.b. 8 mínútur.“

Pikklað grænmeti og laukur
Nota svokallaða 1-2-3, en þá nota ég:
1 hluta edik
2 hluta sykur
3 hluta vatn

„Blanda öllu í pott og sýð upp. Gott er að hafa piparkorn og lárviðarlauf til að bragðbæta.
Þessi marinering passar afar vel við allt rótargrænmeti sem passar svakalega vel með kjöti/fiski og ekki síður í salöt. Þarna nota ég frekar rauðan lauk og gulrætur. Rósakál sem ég blanda í saltvatni með vel af smjöri.“

Rauðbeður-purra

„Baka rauðbeður í grófu salti þar til þær eru meyrar, keyri þær svo í mixer þar til þær verða silkimjúkar. Smakka svo til með salti, pipar og smjöri.“

„Mæli með góðri rauðvíns- eða púrtvínssósu.“


[email protected]