Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Trainspotting frumsýnt. „Láttu fyrsta skiptið verða þitt síðasta“.
Laugardagur 19. nóvember 2005 kl. 21:17

Trainspotting frumsýnt. „Láttu fyrsta skiptið verða þitt síðasta“.

Leikfélag Keflavíkur frumsýndi í gærkvöldi leikritið Trainspotting í leikstjórn Jóns Marínós Sigurðssonar. Leikritið er byggt á bók og kvikmynd eftir Irvine Welsh sem slógu rækilega í gegn á tíunda áratugnum. Hið þjóðþekkta skáld og söngvari, Magnús Þór Jónsson, betur þekktur sem Megas þýddi. Leikritið fjallar um hóp ungs fólks á 8.áratugnum sem eru að reyna fóta sig í lífinu, þrátt fyrir það að vera föst í klóm fíkniefnanna. Sýnt er á raunsæjan hátt hvernig fíknin tekur völd á lífi þeirra og hvaða áhrif neyslan hefur á þau og fólkið í kringum þau. Að lokum nær ein aðalpersónan; Markús að vinna sig úr neyslunni en Tommi vinur hans lést af völdum ofneyslu.

Greinilegt var að mikil vinna var lögð á bakvið leikritið og voru leikarar u.þ.b. á aldrinum 17-25. Alexandra Ósk Sigurðardóttir og Burkni Birgisson, sem lék eina af aðalpersónunum; Tomma, stóðu sig frábærlega og stóðu án efa upp úr þessum góða hóp ungra leikara en bæði eru þau reynd í leiklistarbransanum hérna á Suðurnesjunum. Rúnar Berg Baugsson stóð sig einnig með einstaka prýði en hann var í hlutverki Markúsar.

Trainspotting sýnir vel hvað er í gangi í dag í heiminum, og er þetta hin besta forvörn gegn fíkniefnum. Leikritið er bannað innan 14 ára og er það skiljanlegt þar sem mörg atriði eru ekki við hæfi barna. Allt í allt er þetta mjög vel gert leikrit og ágæt afþreying. Vil ég hvetja alla til að leggja leið sína í Frumleikhúsið sunnudaginn 20.nóvember þar sem Trainspotting er sýnt kl. 21:00. Einnig er leikritið sýnt nokkrar helgar fram að jólum. Miðaverð er 1500 kr.


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024