Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónverk eftir Eirík Árna frumflutt í kvöld
Fimmtudagur 4. mars 2004 kl. 11:40

Tónverk eftir Eirík Árna frumflutt í kvöld

Í kvöld klukkan átta verða tónleikar í DUUS-húsum þar sem Dagný Marinósdóttir flautuleikari og Þorvaldur Már Guðmundsson gítarleikari leika. Þau munu flytja verk eftir ýmsa höfunda og meðal annars munu þau frumflytja tónverkið Blómabeð eftir Suðurnesjamanninn Eirík Árna Sigtryggsson.
Eiríkur Árni hefur kennt um árabil við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskóla Grindavíkur og segir hann tónlistina skipa stóran sess í lífi sínu. Í gegnum tíðina hefur Eiríkur Árni samið mörg tónverk, en á sínum tíma lærði hann tónsmíðar í Bandaríkjunum. „Ég samdi verkið Blómabeð sérstaklega fyrir vini mína sem flytja verkið. Þetta er mjög hlustunarvænt tónverk og ekki of nútímalegt. Það reynir svolítið á hljóðfæraleikarana í verkinu en ég hef verið með þeim á æfingu og þau gera þetta mjög vel,“ segir Eiríkur. En hvaðan kemur nafnið Blómabeð? „Ég hugsaði þetta sem göngu í skrautgarði þar sem göngumaður staldrar reglulega við til að virða fyrir sér blómin.“

Myndin: Eiríkur Árni hlýðir á æfingu Dagnýjar og Þorvaldar í DUUS-húsum á dögunum. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024