Tónlistin þarfnast ekki sama tungumáls
-Sævar Helgi sá um tónsmíðar fyrir Mutter Courage sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu
„Tónlist hefur mismunandi þýðingu fyrir fólki. Fyrir mér er tónlist útrás fyrir alls konar tilfinningum. Það er griðarstaður í tónlist sem hægt er að sækja í. Það er svolítið „introvert-inn“ í mér sem spilar einn á píanóið en svo getur tónlist líka verið mjög félagsleg. Hún tengir fólk saman. Það er ótrúlegt að hlusta á lag eftir einhvern annan og tengja við það. Þú getur verið með ótrúlega ólíkan hóp á sviði, sem á ekkert sameiginlegt og talar ef til vill ekki einu sinni sama tungumálið, en getur svo spilað geggjaða tónlist saman og haft ótrúlega gaman.“
Píanóleikarinn og lagahöfundurinn Sævar Helgi Jóhannsson hefur getið sér gott orð í tónlistinni hérlendis síðustu ár en fyrir stuttu sá hann um tónsmíðar fyrir leikverkið Mutter Courage, sem sýnt var í Kassanum í Þjóðleikhúsinu og í Samkomuhúsinu á Akureyri, en verkið var útskriftarverkefni leikarabrautar sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands. Þá flutti hópurinn einnig atriði úr leikritinu á verðlaunaafhendingu Grímunnar, íslensku sviðslistaverðlaununum, á dögunum.
Sævar Helgi stundar nám við tónsmíðar í Listaháskólanum en samhliða því starfar hann sem píanókennari við Tónlistarskólann í Sandgerði, spilar undir hjá Karlakór Keflavíkur og gefur út eigin tónlist.
Með grjót í maganum
Mutter Courage er talið með bestu leikverkum tuttugustu aldarinnar og eitt kröftugasta stríðsádeiluverk sögunnar en það er eftir Bertolt Brecht. Þetta var í fyrsta skiptið sem Sævar samdi tónlist fyrir leikverk en hann segir það hafa verið mjög lærdómsríkt ferli.
„Ég var með grjót í maganum en er ánægður að þetta hafi komið svona vel út. Ég var lengi að semja þetta og rakst alveg á veggi en það hjálpaði mér að einbeita mér að því hvað þjónaði verkinu, hvernig orku þyrfti í atriðin. Það varð mjög margt af þessu til á æfingum og ég fékk leikarana til að spila á hljóðfæri með mér í sýningunni. Það var gaman að vinna þetta með leikhópnum og við reyndum að draga út þeirra styrkleika,“ segir Sævar og segist aðspurður að hann myndi tvímælalaust taka að sér svipað verkefni aftur. „Maður þarf bara að passa sig að lenda ekki í gryfjunni með egóið og vera með svolítið opinn huga þegar maður fær svona verkefni.“
Sonur óperusöngvarans og píanókennarans
Sævar er alinn upp í Keflavík en bæði móðir hans, Elín Halldórsdóttir, og amma hans, Ragnheiður Skúladóttir, eru píanókennarar. Faðir Sævars er óperusöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson sem stjórnar Karlakór Keflavíkur. „Ég hef lært ótrúlega margt af pabba og ég held að ein af ástæðunum fyrir því að þetta leikverk hafi tekist svona vel hjá mér er vegna þess að ég var nánast alinn upp í óperuhúsinu, sem er svolítill samruni leiklistar og tónlistar.“
Þó að nokkrir píanókennarar séu innan fjölskyldunnar er Sævar Helgi nánast sjálflærður á píanó. „Það var píanó heima hjá ömmu og ég fór til hennar og var alltaf að spila, bullaði bara eitthvað og reyndi að semja. Hvorki mamma né amma nenntu að kenna mér,“ segir Sævar og skellir upp úr en bætir því við að hann skilji það þó ósköp vel í dag. „Þegar maður vinnur svona mikið við þetta þá þarf maður smá ró og næði þegar maður kemur heim en þá var ég bara mættur að hamra á píanóið.“
Sævar hefur sjálfur starfað sem píanókennari við Tónlistarskólann í Sandgerði frá því í ágúst í fyrra og hann segir það mjög gefandi og gott fyrir sig. „Maður lærir svo margt á því sjálfur að miðla þekkingu til yngri kynslóðarinnar. Ég er ótrúlega þakklátur og heppinn að fá tækifæri til að kenna. Tónlistarnámið í Sandgerði er ótrúlega öflugt. Mér finnst rosalega góð orka hérna. Ég hef aldrei verið jafn glaður og liðið jafn vel á vinnustað.“
Nærandi að vinna með ólíku fólki
Tónsmíðar í Listaháskólanum lágu beinast við þegar Sævar tók ákvörðun um áframhaldandi nám og segist í raun ekki muna eftir einhverju tilteknu augnabliki þar sem sú ákvörðun var tekin. „Ég hef alltaf haft þörf fyrir að skapa og mér líður eins og ég sé algjörlega á réttri hillu. Ég gæti ekki verið ánægðari með skólann hvað kennarana varðar. Ég er hjá Kjartani Valdimarssyni í píanókennslu en hann er alveg sturlaður jazz-píanóleikari. Ég er búinn að læra svo margt af honum. Hann er með allt aðra sýn á píanóinu og opnaði á marga möguleika fyrir mig. Svo er ég ótrúlega ánægður með einkakennarana mína, Atla Ingólfs og Mikael Lind. Ég hafði lengi litið upp til Mikael og rakst svo á hann á ganginum í skólanum, eftir að hafa hlustað á tónlistina hans í langan tíma, þar sem ég bað hann um að komast að hjá honum. Hann hjálpaði mér með fyrstu plötuna mína, Lucid, og er að hjálpa mér með þá næstu sem ég stefni á að gefa út á þessu ári. Mér þykir rosa vænt um það,“ segir Sævar.
Innblásturinn í tónlistinni kemur til Sævars alls staðar frá en hann segir það ótrúlega nærandi að vinna með öðru fólki á mismunandi sviðum listarinnar, dönsurum, leikurum og kvikmyndagerðarfólki sem dæmi. „Mér finnst svo gaman að vinna með fólki sem er ólíkt mér. Það er svo gott að fá algjörlega aðra sýn á hlutina.“