Tónlistarveisla í Stapanum
Karlakór Keflavíkur heldur stórtónleika í Stapanum þriðjudaginn 8. maí og fimmtudaginn 10. maí.
Í vetur hefur kórinn verið önnum kafinn. Fyrir áramót söng kórinn tvenna tónleika með Grundartangakórnum. Þá tók kórinn þátt í 100 ára afmælistónleikum Karlakórsins Þrastar í Hörpunni í febrúar. Kórinn hefur sungið á árshátíðum í Bláa- Lóninu, m.a. með stjörnurokkaranum Eyþóri Inga og einnig á eigin vegum.
Kórinn kveður nú Guðlaug Viktorsson stjórnanda sinn til 8 ára en Guðlaugur heldur til framhaldsnáms erlendis. Af þessu tilefni verður meira lagt í tónleikana en venjulega vortónleika.
Á tónleikunum verður boðið upp á söngleikjalög úr West Side Story og My Fair Lady, tónlist eftir Irving Berlin og Leonard Bernstein. Þá mun kórinn syngja nokkra kóra úr óperuverkum svo sem Hermannakórinn úr Faust, Pílagrímakórinn úr Tannhäuser, Veiðimannakórinn og Steðjakórinn.
Einnig mun kórinn flytja „brot af því besta“ frá samstarfi kórsins og Guðlaugs Viktorssonar. Má þar nefna lög eftir Bellman, Hildigunni Rúnarsdóttur, Oddgeir Kristjánsson, Ólaf Gauk, Bjarna J. Gíslason, Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og Magnús Kjartansson.