Tónlistarveisla í Sandgerði: Aftan festival á fimmtudaginn
Aftan festival fer fram á Mamma mía í Sandgerði fimmtudaginn 28. ágúst 2008. Fram koma meðlimir úr Hinu alþjóðlega trúbardorasamsæri og hljómsveitin The Rockville Playboys. Tónleikarnir hefjast kl. 21:00, það er 20 ára aldurstakmark og frítt inn.
Svavar Knútur Kristinsson fer fyrir hinu Hinu alþjóðlega trúbadorasamsæri. Hann er þekktastur fyrir að vera söngvari hljómsveitarinnar Hrauns, en er einnig mjög lunkinn lagasmiður og sigraði í Trúbadorakeppni Rásar 2 árið 2005. Með Svavari Knúti verða trúbadorar frá útlandinu stóra, m.a. frá Ástralíu.
The Rockville Playboys er hljómsveit sem á sér rætur í Sandgerði, Keflavík og Höfnum. Hana skipa þeir Hlynur Þór Valsson, Ólafur Ingólfsson, Ólafur Þór Ólafsson og Pálmar Guðmundsson. The Rockville Playboys spilar blöndu af rokki og sveita- og blústónlist með það að markmiði að skemmta hljómsveitarmeðlimum og um leið áheyrendum. Meðlimir í hljómsveitinni sinna einnig ýmsum öðrum verkefnum í tónlistinni s.s. að tromma með Tommygun Preachers, spila með Klassart og að koma fram sem hinn vinsæli trúbadoradúett Hobbitarnir.
Aftan festival er vettvangur tónlistarmanna í Sandgerði og nágrannasveitarfélögum til að koma list sinni á framfæri. Í þetta skiptið fara tónleikar fram á Mamma mía í upphafi Sandgerðisdaga sem fara fram 29.-31. ágúst.