Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónlistarskólinn í sumarfrí
Fimmtudagur 3. júní 2004 kl. 12:17

Tónlistarskólinn í sumarfrí

Tónlistarskóli Reykjanesbæjar lauk 5. starfsári sínu 27. maí sl. í Kirkjulundi.

Nemendur voru um 670 talsins. Þar af voru 350 í forskóladeild sem er skyldunám á vegum TR í 1. og 2. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar og hluti af samfelldum skóladegi. Forskóli tónlistarskólans kemur í staðinn fyrir hina hefðbundnu tónmenntarkennslu grunnskólanna. Kennarar við skólann í vetur voru 36.
Á skólaárinu tók að fullu gildi ný aðalnámskrá tónlistarskóla og nýtt prófakerfi. Voru því síðustu stigspróf frá skólanum afhent með formlegum hætti á skólaslitunum. Jafnframt voru afhent fyrstu próf samkvæmt hinu nýja prófanakerfi. Við gildistöku nýja prófakerfisins var gamla stigsprófakerfið lagt niður í öllum hljóðfæragreinum nema rafgítar og rafbassa. Nýja prófakerfið skiptist í áfanga sem eru: grunnpróf, miðpróf og framhaldspróf. Með tilkomu nýju áfangaprófanna verður námsmatið samræmt. Prófdómarar eru sérþjálfaðir og einungis þeir geta dæmt þessi próf sem er helsti ávinningur nýja kerfisins.
Afhent voru 40 stigspróf í hljóðfæraleik og söng og 14 áfangapróf, þ.e. 12 grunnpróf og 2 miðpróf. Alls voru því afhent 54 próf fyrir sl. vetur.

Í ávarpi Haralds Árna Haraldssonar skólastjóra kom fram að samstarf Tónlistarskólans og grunnskólanna hefur gengið mjög vel en það felst bæði í forsskólakennslu 1. og 2. bekkjar sem og hljóðfæranámi nemenda í 3. til 6. bekk og jafnvel 7. bekk í hverjum grunnskóla. Þetta fyrirkomulag gefur nemendum kost á að stunda sitt hljóðfæranám á þeim tíma dagsins sem þeir eru móttækilegastir auk þess sem það fer fram á skólatíma og innan hvers skóla. Að öðrum kosti þyrftu hljóðfæranemendur að sækja 2 tíma í viku, eftir skólatíma, utan skóla.

„Þetta kerfi okkar er til mikillar fyrirmyndar og er jafnan litið til Reykjanesbæjar þegar tónlistarnám á skólatíma ber á góma meðal skólamanna og sveitarstjórnarmanna. Og þegar sveitarstjórnarmenn velta því fyrir sér hvernig þeir geti komið svona fyrirkomulagi á í sínum bæ, horfa þeir oft hingað til okkar“, sagði Haraldur í ávarpi sínu.
Fram kom í ávarpi Haraldar að brýnt er orðið að huga huga að framtíðarlausn á húsnæðismálum skólans fyrir þá starfsemi sem ekki fer fram út í grunnskólunum. Mikilvægt er að nýtt tónlistarskólahús verði þannig úr garði gert að hlutverk þess verði haft að leiðarljósi og þær uppeldislegu-,listrænu- og menntunarlegu kröfur sem gerðar eru til tónlistarskóla í dag verði í fyrrrúmi. Gert er ráð fyrir skoðun á þörf TR á kjörtímabilinu en Haraldur sagðist telja nauðsynlegt að ganga lengra.
Tónleikahald á vegum skólans var töluvert mikið í vetur eins og venjan er. Tónfundir voru haldnir á tveggja til þriggja vikna fresti, tónleikar deilda, hljómsveita, kórs og tónleikar ýmiss konar samspilshópa um jól og vor, tónleikar lengra kominna nemenda, og svona mætti lengi telja. Það hefur því verið líflegt í tónleikahaldinu enda er það það talinn mikilvægur þáttur í námi tónlistarnemenda að koma fram og spila eða syngja fyrir áheyrendur. Flestir tónleikanna fóru fram í Listasafni Reykjanesbæjar í Duushúsum og þakkaði Haraldur Árni menningarfulltrúa Reykjanesbæjar sérstaklega fyrir gott samstarf.
Áhersla var lögð á hópastarf í vetur og er það hluti af stefnu skólans að stuðla að sem mest að hvers konar samleik og samsöng. Tónlistarskólinn tók í fyrsta sinn þátt í Píanónemendakeppni EPTA (European Pianoteachers Association) í nóvember og voru nemendur TR skólanum og kennurum sínum til sóma.

Í febrúar var staðið fyrir þemaviku sem nefnd var „Út í bæ“. Þá var hefðbundin kennsla felld niður en nemendur fóru þess í stað út í bæ til tónleikahalds. Þetta uppátæki mæltist mjög vel fyrir og verður hugsanlega endurtekið.
TR tók þátt í Stóru upplestrarkeppninni með umsjón með tónlistaratriði en þar léku nemendur skólans í 7 bekk verk eftir Áka Ásgeirsson sem samin var af því tilefni.
Léttsveitir skólans tóku þátt í Stórsveitahátíð í Ráðhúsi Reykjavíkur í apríl s.l. og vöktu þær þar mikla athygli. Þetta er annað árið sem yngri léttsveit er starfrækt en þar stíga nemendur sín fyrstu skref í flutningi “Big-Band” tónlistar. Þegar þeir verða orðnir nægilega færir, taka þeir sæti í eldri léttsveitinni og hafa þá öðlast töluverða reynslu í að spila þessa tegund tónlistar.
Stelpuhljómsveitin skólans sem kallaði sig “Kókos”, starfaði með krafti í vetur og kom víða fram, við hin margvíslegustu tækifæri. Stelpurnar vöktu alls staðar mikla hrifningu og voru mjög vinsælar.
Hljómsveitin Kókos mun ekki starfa áfram, a.m.k. ekki í bili, þar sem ýmsar breytingar verða á högum stelpnanna næsta vetur.

Þótt starfi tónlistarskólans hafi verið slitið er þó margt framundan en lúðrasveitir skólans munu í byrjun júní taka þátt í Lúðrasveitahátíð sem haldin verður í Hafnafirði í tilefni af "Degi lúðrasveitanna".
Eldri léttsveitin er á förum í tónleikaferð til Bandaríkjanna og Bermunda. Hljómsveitin mun hafa viðkomu í Boston og ljúka ferðinni á Bermuda.

Mynd og texti af reykjanesbaer.is

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024