Tónlistarskólinn í Grindavík á tímamótum
Árið 2012 er sannarlega tímamótaár í sögu Tónlistarskóla Grindavíkur. Haustið 1972 tók Tónlistarskóli Grindavíkur formlega til starfa og fagnar hann því 40 ára starfsafmæli á þessu ári. Af því tilefni verða haldnir veglegir 40 ára afmælistónleikar í haust, skömmu eftir upphaf nýs skólaárs.
Einnig stefnir í að fyrsta skóflustungan verði tekin að byggingu nýs tónlistarskóla á þessu ári og er það mikið fagnaðarefni.
Önnur tímamót eru þau að fyrsti nemandi til að ljúka námi við Tónlistarskóla Grindavíkur, Stefanía Ósk Margeirsdóttir heldur framhaldsprófstónleika sína á píanó næstkomandi fimmtudag, 3. maí kl. 20:00 í Grindavíkurkirkju. Tónleikarnir eru jafnframt burtfarartónleikar hennar frá Tónlistarskólanum í Grindavík. Stefanía hóf nám við Tónlistarskóla Grindavíkur 2004 og lýkur nú námi sínu með glæsilegri efnisskrá en hún flytur m.a. verk eftir Mozart, Scarlatti, Bartók og Liszt. Stefanía hyggur á framhaldsnám við Listaháskóla Íslands.
Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og eru allir velkomnir.