Tónlistarnám á netið á veirutímum
Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, hefur staðið í ströngu á tímum Covid-19 við að aðlaga skólastarfið að þeim takmörkunum sem kórónu-veirufaraldurinn hefur sett skólastarfinu. Hluti kennslu við tónlistarskólann í dag fer fram á netinu en hljóðfæranám og kennsla í söng fer ennþá fram innan veggja skólans. Víkurfréttir tóku hús á Haraldi skólastjóra í vikunni og ræddu við hann um tónlistarskólastarfið. Innslag um heimsóknina í skólann má einnig sjá í Suðurnesjamagasíni
vikunnar.
– Hvernig gengur starfsemin á veirutímum?
„Hún gengur merkilega vel. Þetta hófst síðasta vor og þá settum við nánast allan skólann í fjarkennslu, hljóðfæratíma og söngtíma, eins og hægt var. Það gekk ekki nógu vel með sönginn, þannig að söngkennararnir reyndu að gera þetta með öðrum hætti. Nánast allir náðu að vera með hljóðfæratímana í fjarkennslu. Við settum tónfræðitímana líka í fjarkennslu en þurftum að fella niður hljómsveitatíma. Svona voru ráðstafanir fram í maímánuð. Á þessum tíma náðum við okkur í dýrmæta reynslu og hvernig forrit hentuðu ákveðnum hljóðfæraflokkum upp á tíðnisvið og tónhæð. Eins varðandi það að koma tónfræðigreinunum í svona form. Þar þurftum við að leita fyrir okkur og fundum ágætis leið í gegnum -Google Classroom. Þetta gekk allt vel en í maí gátum við aðeins slakað á þessum ráðstöfunum aftur. Í Covid-ástandinu í vor þá streymdum við öllum okkar vortónleikum, sem voru þrjátíu talsins, og skólaslitum í gegnum YouTube-rás. Það gekk mjög vel en við fengum Hljómahöll í lið með okkur og tæknisnillingana þar með alla sína þekkingu og útbúnað. Þeir voru sjóðheitir eftir að hafa streymt miðvikudagstónleikum úr Hljómahöllinni allt vorið þannig að við komum ekki að tómum kofanum hjá þeim með það og við nutum góðs af.
Núna í haust hófum við tónlistarnámið í staðkennslu hér í skólanum en þegar það kom upp kórónu-veirusmit, sem meðal annars barst hingað inn, þá ákváðum við að hvíla hljómsveitastarf í skamman tíma á meðan mestu öldurnar væri að lægja og færa tónfræðina í fjarkennslu til þess að geta haldið úti hljóðfærakennslunni á staðnum. Með þessum ráðstöfunum vorum við að reyna að verja það og að sjálfsögðu fjölskyldur og nemendur. Það sem ýtti okkur af stað núna er að við misstum fjóra kennara og ríflega tuttugu manna lúðrasveit í sóttkví. Við ákváðum í framhaldi af því að gíra okkur niður með því að hvíla hljómsveitastarfið og færa tónfræðikennsluna á netið.“
– Hvað með aðra þætti í starfinu?
„Við vorum búin að halda nokkra tónfundi eða tónleika fyrr á þessu hausti en vorum þá ekki með áheyrendur í sal, heldur bara nemendurnar sem áttu að spila og þá kennara sem voru að spila undir eða fylgja nemendum sínum í gegnum verkefnin. Við tókum þessa tónleika upp og Karen aðstoðarskólastjóri klippti atriði hvers og eins sem síðan voru send á nemendur og aðstandendur þeirra. Við höfum núna frestað tónleikum en miðað við síðustu tíðindi af sóttvörnum þá sýnist okkur að við getum verið með tónleika í næstu viku og geta unnið upp þá tónleika sem við frestuðum. Ef að líkum lætur verðum við með tónleika á hverjum degi alla næstu viku. Það verður með svipuðu sniði, aðeins nemendur og kennarar og hvert atriði fyrir sig verður tekið upp og sent á nemendur og aðstandendur.
Ástríður Auðbjörg Halldórsdóttir lærir á klarinett hjá Geirþrúði Fanney Bogadóttur.
– Sumt er ekki hægt að hafa í fjarkennslu?
„Söngkennsla er erfitt að hafa í fjarkennslu. Þetta er verklegt nám og það er nánast ógerningur að vinna fínvinnu með nemendum í gegnum fjarkennslu í verklegum greinum í hljóðfæraleik eða söng. Með þessum aðgerðum sem við erum núna að gera, og þessum sóttvörnum hér innandyra þar sem við erum hörð á sprittun, handþvott og með grímuskyldu hjá þeim sem eru fæddir 2004 eða fyrr, þá erum við að reyna að verja eins mikið af starfseminni og hægt er. Á sama tíma erum við að verja þær fjölskyldur sem þar koma að og það skiptir miklu máli. Hver og einn sem fer í sóttkví dregur einhverja með sér. Hljóðfæra- og söngnámið er verklegt og mjög mikilvægt að geta haldið því á staðnum svo að það komi sem mest út úr kennslustundunum.
Við horfum á fjarkennsluna sem tímabundið ástand. Því styttra sem við getum haft hana, því betra.“
– Nú eruð þið ekki undir sama hatti og grunnskólarnir og með nemendur á öllum aldri, allt frá leikskólabörnum til öldunga. Þið þurfið því að gera aðrar ráðstafanir vegna Covid-19, er það ekki?
„Já, við erum með allan aldur en ekki línulaga í aldri eins og grunnskólarnir. Við erum að fá nemendur frá fjögurra ára aldri og upp í áttrætt. Við erum að fá nemendur úr nokkrum af leikskólum bæjarins, öllum grunnskólunum sjö í Reykjanesbæ. Við erum að fá nemendur úr atvinnulífinu og við erum að fá eldri borgara sem umgangast dagsdaglega sína aldurshópa. Í svona tónlistarskóla er aldurinn þvert á samfélagið. Það setur svona stofnun á annan stall en aðrar skólastofnanir og við þurfum því að bregðast við af ábyrgð vegna þess. Ég er ekki að segja að aðrir geri það ekki en við þurfum að horfa á þetta öðruvísi en aðrar skólastofnanir.“
– Það er frábær aðstaða hér í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í Hljómahöll. Eruð þið að standa undir nafni Bítlabæjarins?
„Við búum ofsalega vel í aðstöðu og ekki bara húsnæðislegri aðstöðu, kennara- og starfsmannahópurinn er frábær. Helmingurinn af okkar fólki kemur árum saman af höfðuborgarsvæðinu og það er ómetanlegt. Við erum með fjörutíu kennara og tuttugu þeirra búa hér, sem er frábært, og hinir koma af höfuðborgarsvæðinu. Það er góður starfsandi og húsnæðið er frábært. Svo er líka búið vel að okkur af bæjaryfirvöldum og það skiptir mestu máli. Við gætum lítið gert ef ekki væri stutt vel við bakið á okkur og þessari starfsemi sem ekki er lögboðin starfsemi sveitarfélaga. Ef okkar starfsemi væri ekki sýndur skilningur og væri ekki metnaður þar á bæ fyrir því sem við erum að gera hér, þá væri róðurinn erfiður. Við erum afar þakklát fyrir þá stemmningu sem þar ríkir. Við njótum þess.“
Haraldur Á. Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. VF-myndir/pket.
Ísafold Lilja Bjarkadóttir lærir á selló hjá Grétu Rún Snorradóttur.
Haukur Smári Jóhannsson í píanótíma hjá Guðríði Evu Halldórsdóttur.
Alexander Freyr Sigvaldason í gítartíma hjá Arnari Frey Valssyni.
Valdimar kennir ungum tónlistarnemum í Reykjanesbæ
Tónlistamaðurinn og söngvarinn Valdimar Guðmundsson starfar í dag sem tónlistarkennari í 40% stöðu við afleysingar við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Ef ekki væri fyrir tónlistarkennsluna þá væri lítið að gera hjá honum, utan þess að syngja við útfarir.
– Hvernig er líf tónlistarmannsins núna á tímum Covid-19?
„Það er mjög sérstakt. Það er frekar lítið að gera og alls konar bókanir með fyrirvara og síðan afbókanir. Það eru allir að díla við eitthvað og eins og sagt hefur verið milljón sinnum áður þá eru fordæmalausir tímar.“
– Þannig að það er ekki hægt að skipuleggja mikið fram í tímann?
„Það er mjög erfitt. Afmælistónleikarnir okkar áttu að vera í mars á þessu ári. Við höfum frestað þeim núna tvisvar og þeir hafa verið settir á í mars á næsta ári. Við vitum ekkert hvort það muni haldast eða hvað. Þeir eru eiginlega það eina sem er á döfinni núna og maður þorir varla að plana nokkuð fram í tímann.“
– Hvað með önnur verkefni? Þú hefur verið að syngja við útfarir.
„Já, það er svolítið í gangi. Útfarir eru með öðru sniði og meira að gera fyrir einsöngvara en kóra því allt þarf að vera minna í sniðum. Ég hef fengið eitthvað af útförum að syngja í en það er bara brotabrot af því sem var áður.“
– En þú ert að kenna við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
„Já, ég tók að mér afleysingar hér í 40% stöðu þangað til á næsta ári. Það hitti vel á fyrir mig þar sem ég var þannig séð atvinnulaus. Það er skemmtilegt að takast á við þetta þar sem ég var búinn að vera að velta fyrir mér að fara út í tónlistarkennsluna og gaman að fá þetta tækifæri því það gat eiginlega ekki komið á betri tíma að fá þessa stöðu.“
Aðspurður, hvort Valdimar sé að semja einhverja tónlist, þá segir hann að það sé auðveldara að semja núna en í fyrstu bylgjunni. Tíðarfar hafi þó lítil áhrif á hann þegar komi að því að fá andann yfir sig og tengist ekki Covid-ástandinu. „Stundum er ég í stuði til að semja og stundum ekki,“ segir hann. Hann hefur aðeins verið að fást við að semja undanfarið en í fyrstu bylgjunni gerðist ekki neitt.
Valdimar og Úlfur Eldjárn gerðu nýverið lag fyrir sýninguna Upphaf í Þjóðleikhúsinu. „Þetta var skemmtilegt verkefni að takast á við. Ég samdi textann ásamt Úlfi, hann samdi lagið og ég söng. Þetta var annað kærkomið verkefni í Covid,“ segir Valdimar Guðmundsson, tónlistamaður og tónlistarkennari við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.