Tónlistarmenningarverðmæti Kela til sýnis í Rokksafni Íslands
Rokksafn Íslands hefur opnað sýningu sem fjallar um Sævar Þorkel Jensson, betur þekktur sem Keli, og úrklippubókasafn hans en Keli hefur frá því að hann var ungur strákur safnað úrklippum og eiginhandaráritunum tónlistarfólks.
Það væru ekki til neinar stjörnur ef aðdáendur væru ekki til. Oft er þetta sama fólkið, en alvöru safnarar eru samt fámennur hópur, sem hefur í gegnum aldirnar haldið til haga mörgu af því sem er til sýnis á söfnum um allan heim.
Safnarar á Íslandi safna ólíklegustu hlutum, en það eru ekki margir sem eru jafn ákafir safnarar á sviði rokk-, popp- og hvers konar dægurtónlistar eins og Keli. Sævar Þorkell Jensson, kallaður Keli, hefur safnað eiginhandaráritunum og úrklippum frá árinu 1964 þegar hann sá Hljóma fyrst á sviði. Keli á eitt stærsta úrklippusafn um dægurtónlist á Íslandi. Hann mætir gjarnan á tónleika með úrklippubók og fær viðkomandi tónlistarfólk til að rita nöfn sín í bókina. Honum er jafnan vel tekið og hefur safnað áritunum flestra poppara og rokkara landsins. Hann á líka eiginhandaráritanir heimsþekktra tónlistarmanna.
Úrklippubækur Kela geyma margskonar fróðleik og spanna dægurtónlistarsöguna í rúmlega hálfa öld. Bækurnar í dag eru rúmlega þrjú hundruð og fimmtíu talsins. Um er að ræða mikil menningarverðmæti og merkilega heimild um tónlistarsöguna.
Keli á umtalsvert magn af úrklippum sem tengjast Bubba Morthens, Björk, Bríet, Helga Björns, GDRN, Jónasi Sig, Stefáni Jakobssyni, Hjálmum, Baggalúti og John Grant, svo fátt eitt sé nefnt en Keli verður með bækur sínar til sýnis á Rokksafni Íslands á meðan sýningin stendur.