Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónlistarkennsla í hálfa öld
Miðvikudagur 12. september 2007 kl. 09:09

Tónlistarkennsla í hálfa öld

- Stórtónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og heimamanna í Reykjanesbæ föstudaginn 5. október 2007.

Nú í haust eru 50 ár frá því  tónlistarkennsla hófst með formlegum hætti í Reykjanesbæ en þ. 24. okt. 1957 var Tónlistarskólinn í Keflavík stofnaður. Af þessu tilefni mun Sinfóníuhljómsveit Íslands halda stórtónleika í Reykjanesbæ með þátttöku heimamanna föstudagskvöldið 5. október.

Á þessari hálfu öld hefur mikið vatn runnið til sjávar í tónlistarkennslu á svæðinu. Margir nemendur hafa notið leiðsagnar góðra kennara og all nokkrir lagt tónlistina fyrir sig. Á tónleikunum munu bæði núverandi og fyrrverandi nemendur og kennarar kveðja sér hljóðs sem höfundar og flytjendur ásamt fjölda annarra listamanna.

 Á tónleikunum mun Karlakór Keflavíkur syngja, við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nokkur lög úr efnisskrá sem kórinn flutti sl. vor í Stapanum við miklar vinsældir, Davíð Ólafsson syngur einsöng, Sigurður Flosason leikur verk fyrir saxófón og sinfóníuhljómsveit eftir Veigar Margeirsson, Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar leikur útsetningar Herberts H. Ágústssonar  á íslenskum þjóðlögum fyrir lúðrasveit og sinfóníuhljómsveit auk þess sem flutt verða hljómsveitarverk m.a. eftir Eirík Árna Sigtyggsson.

Styrktaraðili tónleikanna er Sparisjóðurinn í Keflavík, sem fagnar 100 ára afmæli um þessar mundir, og aðal hljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Rumon Gamba, mun halda um tónsprotann.

Tónlistarskólinn í Keflavík og Tónlistarskóli Njarðvíkur voru sameinaðir árið 1999 í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Bæjaryfirvöld hafa nýverið kynnt mjög metnaðarfull áform í uppbyggingu nýs tónlistarskóla við Stapa; Hljómahöllina, og verða teikningar af nýja skólanum til sýnis fyrir tónleikana og í hléi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024