Tónlistarhátíðin Keflavíkurnætur haldin í ágúst
Frábrugðið ATP og Keflavík Music Festival
Tónlistarveisla sem ber nafnið Keflavíkurnætur verður haldin í miðbæ Reykjanesbæjar helgina 15.-17 ágúst nk. en þar koma fram margir af þekktari tónlistarmönnum landsins. Það er Garðbúinn Árni Árnason sem ber veg og vanda af hátíðinni en hann segist sakna gömlu stemningarinnar í rokkbænum.
„Það er flestum í fersku minni þegar troðið var í Stapa á böllunum hér áður fyrr. Ég sakna fjörsins sem myndaðist við slík böll og mig grunar að ég sé ekki einn um það. Ég ræddi þetta við nokkra góða einstaklinga sem voru mér sammála. Þá var ég kominn í þá stöðu að gera eitthvað í málinu og hugmyndin um Keflavíkurnætur varð til. Ég vissi að ég hefði ekki allt sem þyrfti til að blása upp glæðurnar í ball-stemningunni sem Keflavík var þekkt fyrir, en núna er búið að bóka hljómsveitir og tónlistarmenn og skemmtistaðina Ránna, Center og Players,“ segir Árni.
Miðbærinn verður að einum stórum skemmtistað
Árni segir Keflavíkurnætur vera töluvert frábrugðna ATP tónlistarhátíðinni sem fram fór á dögunum og sömuleiðis Keflavík Music Festival sem haldin var síðustu tvö ár í miðbæ Reykjanesbæjar. „Keflavíkurnætur býður upp á dansleiki eða alvöru böll föstudags- og laugardagskvöld á helstu skemmtistöðum Keflavíkur. Það sem er öðruvísi við gömlu stemninguna er að í þessa skipti verða fleiri en eitt ball í gangi á sama tíma. Með armbandinu er hægt að flakka á milli ef vilji er til þess og miðbærinn verður að einum stórum skemmtistað. Böllin hafa öll sína sérstöðu, þar að segja að fjölbreytnin verður við völd. Þeir sem hafa aldur til, ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Árni segist hafa fulla trú á því að Suðurnesjamenn og fleiri hafi áhuga á að hrista upp í næturlífinu eina helgi í Keflavík. „Helstu stórmenni íslenskrar tónlistar mæta á svæðið og ef það er ekki tækifæri nú til að bjóða vinum og félögum í grill og fyrirpartý, þá veit ég ekki hvað. Ég er sannfærður um að Keflavíkurnætur eigi eftir að hrista ærlega upp í stemningunni í rokkbænum Keflavík.“