Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónlist úr Garðinum endaði í mynd Ben Stiller
Miðvikudagur 25. desember 2013 kl. 10:00

Tónlist úr Garðinum endaði í mynd Ben Stiller

Við heyrum reglulega af Hollywoodkvikmyndum sem eru teknar upp hér á Íslandi. Hitt vitum við ekki að Kristín Júlla Kristjánsdóttir úr Garðinum hefur unnið við flest af þessum verkefnum. Þá fara flestir til Hollywood að leita sér að vinnu í Mekka kvikmyndabransans. Hollywood ákvað hins vegar að koma til Kristínar. Á haustdögum 2012 mætti nefnilega Ben Stiller með allt sitt lið í Garðinn til að taka upp nokkur atriði í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty. Kristín sá um förðun og gervi í myndinni. Hún er búsett í Garðinum og gat því í nokkra daga labbað heiman frá sér á Hollywood-settið.

VERÐUR OF MONSTERS AND MEN Í MYNDINNI?

Kristín Júlla og íslenskir samstarfsfélagar hennar kvöddu Hollywood-stjörnuna Ben Stiller með gjöfum, m.a. úr Garðinum. Meðal annars fékk hann hljómdisk með tónlist Of Monsters and Men sem skartar söngkonunni Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur úr Garðinum. Og viti menn; þegar kynningarstikla úr kvikmyndinni var gefin út nú í haust þá hljómar undir henni tónlistin úr Garðinum. Nú bíða allir spenntir eftir því þegar kvikmyndin sjálf mætir á hvíta tjaldið um jólin hvort tónlistina sé ekki líka að finna þar.



MIKIÐ FRELSI Í PERSÓNUSKÖPUN

Kristín Júlla titlar sig sem leikgervahönnuð. Þeir sem fylgjast vel með í sjónvarpi og kvikmyndum sjá nafn hennar æ oftar á skjánum. Hennar nýjasta verkefni, Fólkið í blokkinni, er nýhætt í sýningum á RÚV. Þar fékk Kristín mikið frelsi við sköpun á persónum þegar kom að hári og förðun. Þá var einnig verið að ljúka upptökum á öðru verkefni, Hrauninu, þar sem Kristín sér jafnframt um hár og förðun. Hraunið er sjálfstætt framhald af Hamrinum sem naut mikilla vinsælda.
Þegar Suður með sjó settist niður með Kristínu um miðjan nóvember ætlaði hún að taka því rólega næstu daga og láta lítið fyrir sér fara. Framundan voru þó nokkur verkefni tengd auglýsingum og þá hefur Kristín farðað söngvara fyrir marga af þeim tónleikum sem við þekkjum í aðdraganda jóla.

MIKIL KÚNST AÐ FARÐA

Það er mikil kúnst að farða leikara fyrir kvikmyndir og skapa hin ýmsu gervi. Kristín hefur t.d. þurft að lesa sig talsvert til um gerð skotsára og annarra áverka, svo þeir líti sem eðlilegast út á skjánum. Þá reynir nýjasta tækni mjög á förðunarmeistara í dag því eftir að farið var að mynda allt í háskerpu, þá er erfiðara að fela allar misfellur. Það er til dæmis stórmál í dag að útbúa gerviskegg á leikara svo það sýnist eðlilegt. Þá hefur Kristín fengið það verkefni að teikna húðflúr á leikara og jafnvel þurft að endurtaka sömu teikninguna í nokkra daga á meðan tökum hefur staðið.



LANGAR EKKI TIL HOLLYWOOD

Kristínu langar ekkert að starfa í Hollywood, því frelsið í íslensku kvikmyndagerðinni er meira. Hér er hún að fást við hár, förðun og brellur ýmiskonar á meðan í Hollywood sá starfar þú bara í hári, bara í förðun eða sérð jafnvel bara um blóð og skotsár. Íslenskt starfsfólk er líka eftirsótt þegar kemur að tökum á erlendum kvikmyndum hér á landi. Eitt stórverkefnið er t.a.m. á leiðinni á hvíta tjaldið. Það er Noah með Russell Crowe og Emma Watson. Kristín leyfði sér að hafna vinnu við myndina og uppskar „Hvað ertu eiginlega að pæla mamma,“ sjá syni sínum. Þess í stað fór Kristín í frí með sonum sínum og fór til Færeyja í brúðkaup hjá vinkonu sinni, Eyvör Pálsdóttur.

Kristín veit af tveimur stórum verkefnum við kvikmyndir á næsta ári. Hún hefur þó áhyggjur af því að framlög til kvikmyndagerðar eru að skerðast, því þeir fjármunir sem varið er til kvikmyndaiðnaðarins hér á landi skila sér margfalt til baka í þjóðarbúið. Þá finnst Kristínu jafnframt leiðinlegt að sífellt sé verið að etja saman listgreinum og heilbrigðiskerfinu.

VONARSTRÆTI STENDUR UPPÚR

Kristín hefur tekið þátt í mörgum skemmtilegum verkefnum á þessu ári. Hún segir kvikmyndina Vonarstræti standa uppúr og þá sérstaklega ferð til Ítalíu og Sardiníu þar sem lokasena myndarinnar var tekin upp. Hún segir að það hafi verið ótrúlega gaman að koma á þessa eyju þar sem ríka fólkið geymir snekkjurnar sínar. Hún segir eyjuna vera svolitla mafíósaeyju. Fyrst og fremst hafi verkefnið þó verið ögrandi og hafi reynt á hana í gerð leikgerva.

(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024