Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónlist sem hrærir við tilfinningum
Þriðjudagur 2. nóvember 2004 kl. 13:45

Tónlist sem hrærir við tilfinningum

Tilraunakennd raftónlist, hvað er það? Suðurnesjamenn fengu hágæðakynningu á tónlistarfyrirbærinu á skemmtistaðnum Paddy´s í gærkvöld. Robert Hampson eða Main eins og hann er kallaður kom alla leið frá Englandi til þess að spila hér en hann hefur gefið út einar 20 plötur á 14 árum sem innihalda tónlist af þessu tagi.

Raftónleikarnir voru liður í kynningu á þessari tónlist hérlendis en tónlistin einkennist af því að raftónlistarmaðurinn blandar saman mörgum hljóðum og skipt er ört á milli þeirra. „Maður vinnur kannski í langan tíma með eitt hljóð og svo safnast þau upp og þeim er blandað saman, þetta gerist í mörgum upptökum og mikilli stúdíóvinnu,“ sagði raftónlistamaðurinn Curver sem var í forsvari fyrir þennan framandi hóp tónlistarmanna.

Það var heimamaður sem steig fyrstur á stokk, Ingi Þór Ingibergsson en hann var vopnaður gítar og líkaði áheyrendum vel. Fyrstur raftónlistamannanna var Curver og svo komu þeir Heimir Björgúlfsson og Svíinn Jonas Ohlson en þeir hafa spilað víðsvegar um Bandaríkin og Evrópu, lokanúmerið var svo reynsluboltinn Main en sviðsframkoma hans var mjög flott þar sem hann sat einn í myrkrinu með tölvuna sína og einbeitningin skein úr augum hans. Tónlistin sjálf hefur margvísleg áhrif á þann er hlustar, á köflum upplifir maður algert hljóðöngþveiti og svo skyndilega hoppar inn taktur þar sem mann langar til þess að brjótast í dans en lögin eiga það flest ef ekki öll sameiginlegt að enda í skyndingu. Þau skilja mann eftir í tómi en tilfinningarnar halda áfram að brjótast um innra með manni.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér þessa tónlist nánar þá eru það Smekkleysa plötubúð og 12 Tónar, báðar í Reykjavík, sem hafa að geyma tónlist af þessu tagi. Einnig er hægt að hafa samband og leggja inn fyrirspurnir á póstfangið [email protected] en Tími sem er miðstöð tímalistar hefur um langt skeið verið lífæð tónlistar af þessu tagi. „Ég vil þakka Halla Valla og Inga Þór fyrir góð störf í þágu tormeltrar tónlistar,“ sagði Curver við blaðamann sem hneppti að og hélt út í rigninguna fróðari um lífið og tilveruna en deginum áður.

VF-myndir/Jón Björn Mynd 1: Jonas Ohlson, Heimir Björgúlfsson, Main, Biggi Curver. Mynd 2: Jonas og Heimir týndir í tónaflóði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024