Tónlist og gamlar myndir í 40 ára afmæli Fjölbrautaskólans
Fjölmargir lögðu leið sína í Opið hús hjá Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem fagnaði fertugsafmælinu með því að bjóða fyrrverandi nemendum, kennurum og íbúum í heimsókn í skólann sl. laugardag.
Tónlistin var fyrirferðamikil á afmælisdeginum en Stórsveit Suðurnesja gaf tóninn þegar húsið var opnað og síðan mættu nokkrir tónlistarmenn og hljómsveitir og tóku nokkur lög, lang flestir fyrrverandi eða núverandi nemendur. Þetta voru Valdimar og Hljómsveitin Klassart, Davíð Ólafsson, Stefán Helgi Stefánsson og Helgi Hannesson og þá söng Dagný Halla Ágústsdóttir en hún er nýnemi við FS.
Kristján Ásmundsson, skólameistari flutti stutta afmælistölu og sagði frá ýmsu í starfi skólans frá stofnun hans árið 1976 og hvernig hann hafi þróast. Hann færði Ægi Sigurðssyni gjöf frá FS en hann hefur kennt við skólann alla tíð og rúmlega það því hann kenndi einnig við framhaldsdeild Gagnfræðaskóla Keflavíkur í tvö ár. Þau voru nokkurs konar upphaf að FS. Þá færði Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði skólanum glæsilegt málverk að gjöf frá Sveitarfélaginu Garði en það er eftir japanska listamanninn OZ-Keisuke Yamaguchi og heitir „Breath“. Verkið gerði listamaðurinn á hátíðinni Ferskum vindum í Garði sl. vetur. Þá var sagt frá undirbúningi að stofnun hollvinasamtaka skólans en stefnt er að því að stofnfundur verði í nóvember. Söngsveitin Drengjabandið skemmti gestum milli atriða en hana skipa nokkrir kennarar og starfsmenn skólans en þeir hafa verið duglegir við að syngja á skemmtunum á vegum skólans undanfarin ár.
Drengjabandið eða skólahljómsveitin tók nokkur lög.
Fyrrverandi nemendur skoðuðu gamlar myndir, m.a. útskriftarmyndir, f.v. Una Steinsdóttir, Guðný Reynisdóttir, Axel Nikulásson og Reynir Valbergsson.
Listaverkið „Breath“ sem Sveitarfélagið Garður gaf skólanum, glæsilegt og stórt og sómir sér vel í skólanum.
Kristján Ásmundsson núverandi skólameistari, lengst til hægri með tveimur fyrrverandi, Hjálmari Árnasyni og Ólafi Jóni Arnbjörnssyni.