Tónleikum Skálmaldar frestað
Söngvari og gítarleikari slasaði sig á hendi.
Tónleikum þungarokkssveitarinnar Skálmaldar, sem vera áttu í Hljómahöll næstkomandi laugardagskvöld, hefur verið frestað til 17. apríl. Ástæðan er óhapp sem söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar, Björgvin Sigurðsson, varð fyrir á vinstri hönd en það kemur í veg fyrir að hann geti leikið með hljómsveitinni. Er þetta í fyrsta sinn sem hljómsveitin neyðist til að fresta tónleikum á ferli sínum og harmar hún það mjög.
Miðar sem keyptir voru á tónleika sveitarinnar þann 28. mars gilda á tónleikana þann 17. apríl. Þeir gestir sem vilja fá miða sína endurgreidda geta haft samband við Tix.is á netfangið [email protected] eða í síma 551 3800.