Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónleikaröðin Þrástef
Flytjendur á fyrstu tónleikum tónleikaraðarinnar Þrástefs sem verða haldnir í Bergi, Hljómahöll.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 18. maí 2022 kl. 22:31

Tónleikaröðin Þrástef

Þrástef er nýstofnuð tónleikaröð á vegum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar (TR) þar sem kennurum skólans gefst tækifæri til að flytja fjölbreytta tónlist og miðla þekkingu sinni og reynslu til nemenda sem og annara tónlistarunnenda.

Fyrstu tónleikar Þrástefs verða haldnir föstudaginn 20. maí kl. 20:00 í Bergi, Hljómahöll. Að loknum tónleikum bjóða flytjendur upp á spurningar úr sal þar sem tónleikagestir fá tækifæri til að spyrja þá spjörunum úr varðandi flutninginn, tónlistina, hljóðfærin eða hvað annað sem þeim dettur í hug.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Efnisskrá:

Klarínett dúett nr. 1 í Es-dúr, útsett fyrir klarínett og víólu eftir Bernhard Crusell.

Prelude, Allegro og Pastorale fyrir víólu og klarínett eftir Rebecca Clarke.

„Kegelstadt“ tríó í Es-dúr fyrir píano, víolu og klarínett KV 498 eftir Wolfgang Amadeus Mozart.

Flytjendur eru Auður Edda Erlendsdóttir (klarínett), Kristján Karl Bragason (píanó) og Þórunn Harðardóttir (víóla).

Aðgangur á tónleikana er öllum ókeypis en þeir eru styrktir af menningar- og atvinnuráði Reykjanesbæjar.

Þórunn Harðardóttir og Jóhanna María Kristinsdóttir eru skipuleggjendur tónleikaraðarinnar Þrástefs.

„Tónleikaröðin Þrástef gefur kennurum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar tækifæri til að stíga frá kennarahlutverkinu, flytja fjölbreytta tónlist og leyfa skapandi listamanninum að koma fram. Þetta er vettvangur fyrir kennara. „Að okkar mati er mikilvægt að nýta þann dýrmæta mannauð fagfólks sem Tónlistarskóli Reykjanesbæjar býr yfir og að kennarar skólans fái notið sín sem tónlistarflytjendur,“ segir Jóhanna María Kristinsdóttir, tónfræðikennari og annar skipuleggjenda Þrástefs en hún og Þórunn Harðardóttir, strengjakennari, eiga saman heiðurinn að tónleikaröðinni.


Markmið tónleikaraðarinnar er margfalt en með henni vilja þær Jóhanna og Þórunn t.d. ...

... veita kennurum skólans aukið tækifæri til að koma fram og leyfa sköpunargleðinni að ráða för.

... veita tónlistarnemendum tækifæri til þess að sjá og heyra kennara sína sem tónlistarflytjendur.

... stuðla að auknu framboði fjölbreytts tónleikahalds í bæjarfélaginu.


„Við stefnum að því að halda allavega tvenna tónleika á hvorri skólaönn, s.s. fjóra yfir hvert skólaár. Næstu tónleikar verða að öllum líkindum haldnir snemma í september.

Kennarar TR hafa í nokkurn tíma rætt sín á milli að það væri gaman að geta verið með einhverskonar tónleikahald á vegum skólans en hugmyndin kviknaði í raun inn á kennarastofu þegar Þórunn segir við mig að hún hafi heyrt að ég væri svona manneskja sem gerir hlutina. Þar sem mér fannst þetta frábær hugmynd og hef smá reynslu af skipulagi tónleikahátíða ákváðum við að láta verða að þessu og sjá svo hvert þetta verkefni myndi leiða okkur. Þetta er allt saman á algjöru tilraunastigi en við erum vongóðar og bjartsýnar á að þessi tónleikaröð eigi eftir að gefa mikið af sér til samfélagsins og sé komin til að vera.“

Frá æfingu: Þórunn Harðardóttir, víóluleikari, Auður Edda Erlendsdóttir, klarínettleikari, og Kristján Karl Bragason, píanóleikari.