Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónleikarnir Englar og menn í Strandarkirkju á sunnudag
Fimmtudagur 14. júlí 2016 kl. 15:10

Tónleikarnir Englar og menn í Strandarkirkju á sunnudag

Þriðju tónleikar í tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju verða haldnir næsta sunnudag 17. júlí og hefjast klukkan 14:00. Þar kemur fram Arnhildur Valgarðsdóttir, organisti í Fella- og Hólakirkju, ásamt söngvurunum Kristínu Ragnhildi Sigurðardóttur sópran og Ásgeiri Páli Ágústssyni baritón.

Ljúf og persónuleg stemning skapast jafnan á tónleikum Engla og manna í Strandarkirkju og að þessu sinni munu hljóma þar íslenskar sönglagaperlur og dúettar ásamt þekktum ljóðum og aríum stóru meistaranna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðgangseyrir að tónleikunum er 2.000 krónur. Ekki er tekið við greiðslukortum. Að tónleikum loknum er upplagt að fá sér veitingar hjá heimamönnum í Selvognum.

​Tónlistarhátíðin Englar og menn h​ófst​ í Strandarkirkju sunnudaginn 3. júlí​ síðastliðinn og verður alla sunnudaga í júlí. Hátíðin er nú haldin í fjórða sinn og verður í ár glæsileg sönghátíð líkt og á síðasta ári þar sem fjölmargir þjóðþekktir listamenn koma fram. Þ​ema hátíðarinnar er englar og menn, land, náttúra, ​trú og saga þar sem íslensk þjóðlög og sönglög,​ ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum og klassískum verkum​,​​ ​hljóma á um klukkustundar löngum tónleikum.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Nýsköpunarsjóði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd.

Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni.