Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tónleikar á þorra - í Frumleikhúsinu á morgun kl. 20:00
Fimmtudagur 9. febrúar 2012 kl. 09:58

Tónleikar á þorra - í Frumleikhúsinu á morgun kl. 20:00

Rytmíska deild Tónlistarskóla Reykjanesbæjar stendur fyrir tónleikum í Frumleikhúsinu við Vesturbraut á morgun, föstudaginn 10. febrúar kl. 20.00.

Á tónleikunum koma fram tvær hljómsveitir innan rytmísku deildarinnar, sem leika rokk-, popp- og blústónlist og svo Léttsveit Tónlistarskólans. Stjórnendur á tónleikunum eru Eyþór Ingi Kolbeins og Karen Janine Sturlaugsson.

Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar hefur þegið boð um að halda þrenna tónleika á næstu ISME ráðstefnu, sem haldin verður í borginni Þessaloniki á Grikklandi, dagana 15. – 20. júlí nk. ISME, eða International Society of Music Education, eru ein elstu og virtustu alþjóðasamtök um tónlistarmenntun og tónlistarkennslu í heimi. Samtökin, sem voru stofnuð árið 1953 af UNESCO, standa reglulega fyrir menntaráðstefnum og eru þær ávallt fjölsóttar af tónlistarkennurum, skólastjórum og öðrum sem vinna að eða tengjast menntamálum í tónlist á einhvern hátt. Fáir íslenskir tónlistarskólar eða skólahópar hafa í gegnum tíðina fengið boð um tónleikahald á ISME ráðstefnu og þetta boð er því afar mikill heiður fyrir Tónlistarskólann og bæjarfélagið okkar.
Efnisskrá tónleikanna í Frumleikhúsinu á morgun, verður afar fjölbreytt og spennandi.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024