Tommygun Preachers með plötu
Rokksveitin Tommygun Preachers sendir frá sér í næstu viku sína fyrstu plötu, Jawbreaker. Á plötunni má finna samansafn af verkum sveitarinnar síðustu tvö árin, en upptökur fóru fram í Hljóðrita í Hafnarfirði. Kiddi í Hjálmum sá um upptökur á plötunni og Geimsteinn gefur hana út.
Fjórmenningarnir hafa verið iðnir við kolann að undanförnu og leikið víða, aðallega á Suðurnesjunum, en stefna að því að gera víðreist á tónleikaferðalagi um allt land.
Tónlist þeirra er hreinræktað rokk en hafa þeir verið að breytast mikið í gegnum tíðina?
„Já, við höfum breyst alveg helling," sögðu þeir í samtali við Víkurfréttir. „Við höfum verið að þróast hægt og rólega og erum alltaf að þyngjast."
Aðspurðir hvort jafn langt yrði að bíða næstu plötu þvertóku þeir fyrir það. „Við vonum ekki allavegana. Þá verðum við orðnir fertugir eða eitthvað," sögðu þeir að lokum og hlógu.