Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tommygun og Æla á Airwaves
Föstudagur 14. október 2005 kl. 11:58

Tommygun og Æla á Airwaves

Hljómsveitirnar Æla og Tommygun frá Suðurnesjum gerðust svo lukkulegar að fá að spila á Iceland Airwaves tónlistarhátíðinni sem hófst í gær. Hátíðin stendur fram á sunnudagskvöld og mun fjöldinn allur af hljómsveitum koma fram á hátíðinni. Tommygun mun spila á Gauknum n.k. laugardag kl. 20 en Æla stígur á stokk sama kvöld kl. 22:40. Víkurfréttir settu sig í samband við hljómsveitirnar en Magni var fyrir svörum hjá Tommygun og Halli Valli fræddi okkur um Ælu.

Tommygun:

Það hafa verið einhverjar hræringar á bandinu en hverjir eru núverandi meðlimir og hverjir eru hættir?
Núverandi meðlimir eru þeir Magni, Smári, Óli og Ingi, en Guðmundur Freyr (Gummi Bassi) sagði skilið við bandið síðastliðið vor til að einbeita sér að vinnu sinni, en hann er í dag einn af frambærilegri ljósmyndurum landsins. Við brohvarf Gumma var farið að leita að nýjum bassaleikara og kom þá í ljós að Ingi er svona líka magnaður á bassanum en hann hafði áður spilað á gítar og hafði bandið unnið með honum er við tókum upp nokkur lög í stúdíói þeirra feðga, Lubba Pís.

Eruð þið einungis með frumsamið efni?
Nei, við eigum það til að taka okkur frí frá frumsamda efninu okkar og leika okkur aðeins með lög annarra sveita, áhrifavalda okkar og annara, það gefur ákveðna útrás að spila lög eftir aðra. Þó rata ekki mörg lög inn á prógrammið okkar, laumum kannski einu og einu inn á milli okkar laga.

Komi boð um að spila erlendis verður þá hoppað upp í næstu vél?
Hiklaust! Ef það stæði til boða held ég að maður myndi ekki hugsa sig um tvisvar, það er jú alltaf ákveðinn draumur að fá að spila erlendis enda gera fáir sér einhverja frægðargrillur fastir á klakanum.

Hverjar eru væntingar ykkar í kringum tónlistarhátíðina?
Ætli maður verði ekki að vera raunsær og búast ekki við of miklu. Við munum spila okkar gigg og vona að sem flestir hafi áhuga á því sem við erum að gera, við gerum engar kröfur til annara en okkar sjálfra um að skila okkar besta og ekki væri verra ef sviti og blóð væri á gólfinu að því loknu!

ÆLA:

Hvaða meðlimir skipa hljómsveitina?
Hafþór, Halli Valli, Sveinn Helgi og Ævar.

Hvernig kom það til að þið mynduð spila á Iceland Airwaves í ár?
Við spiluðum á hátíðinni í fyrra og sóttum um aftur í ár ásamt trilljón öðrum sveitum, að okkur skilst, og fengum aftur að vera með. Menn eru enn að ná áttum eftir tónleikana í fyrra. Þetta er gott tækifæri fyrir íslenskar hljómsveitir því stór hluti af miðasölunni á hátíðina fer fram erlendis og það koma yfir 40 erlendir fjölmiðlar til að skrifa um tónlistina, þar á meðal hið frækna tímarit Rolling Stone.

Er kominn fiðringur í mannskapinn fyrir helginni?
Airwaves helgin er frábær. Hátíðin var kosin ein af fimm bestu tónlistarhátíðum í Evrópu þannig að það er ekki einungis komin tilhlökkun við að stíga á stokk heldur einnig að flakka á milli og sjá allt sem er að gerast.
.
Er ekki diskur væntanlegur frá Ælu?
Jú, geislaplata er væntanleg. Við viljum helst ekki lofa upp í ermina á okkur en við lofum niðri í kok að við ælum henni út fyrir jól. Mun hún bera heitið: ,,Sýnið tilllitssemi, ég er frávik” og ætti hvert einasta mannsbarn að eignast gripinn því hann mun vera mjög þroskandi. Einnig mun eitt lag af plötunni koma út á safndisk í Bretlandi og í kjölfar þess förum við smá í tónleikaferðalag um landið.

VF-myndir/ Gúndi

Mynd 1: Æla

Mynd 2: Tommygun

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024