Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 6. október 1999 kl. 19:58

TÓMAS IBSEN SKRIFAR: ENN UM ERÓTÍK OG KLÁM

Mikið er orðið hart í heimi hér þegar fólki er meinað að nota lýðræðislegan rétt sinn til að koma í veg fyrir að óæskileg starfsemi fái starfsleyfi, á ég þá við fyrirhugaða klámbúllu í Grófinni. Menn geta fundið ýmis falleg nöfn á klámi, en klám er og verður alltaf klám. Klámi hefur alltaf og mun alltaf fylgja spilling, sama hvar það er viðhaft, jafnvel hér í Reykjanesbæ. Það verður ekki fram hjá því litið að því fylgir vændi og eiturlyf eru ávalt á næstu grösum. Þetta er það sem fjöldi fólks í bæjarfélagi okkar gerir sér grein fyrir og vill því ekki að margumræddur nektarstaður verði opnaður. Það er alls ekki vegna einhverrar illkvittni í garð Jóns M. Harðarsonar að fólk hefur þessa afstöðu, heldur höfum við áhyggjur af afleiðingum þess á bæjarfélagið og þá sérstaklega á unga fólkið okkar. Mig furðar viðbrögð ritstjóra Víkurfrétta og annarra sem tönnlast á því að það sé ekki hægt og megi bara alls ekki banna honum Jóni að opna þennan stað. Það er skrýtið lýðræði þar sem fólki er leyft að hella yfir okkur allskonar sora í nafni lýðræðisins, en meirihluti bæjarbúa hefur ekki rétt til hins sama lýðræðis, til að verjast og hafna soranum. Ég er ekki hér með að segja það að Jón hafi það í hyggju að koma á vændi eða sölu eiturlyfja, ég tilreikna honum ekki slíkar áætlanir, en í kring um starfsemi sem þessa verða alltaf til slíkir óæskilegir hlutir og auk þessa þá er óþarfi að ögra hjónaböndum og heimilislífi bæjarbúa. Það er með ólíkindum að menn skulu gera lítið úr persónulegu siðferðissjónarmiðum bæjarfulltrúa. Þegar fólk er kosið til ábyrgðarstarfa er því uppálagt að fara eftir eigin sannfæringu og samvisku, síðan þegar það gerist eins og nú að menn greiða atkvæði eftir samvisku sinni ætlar allt að verða vitlaust. Til hvers er annars verið að leggja mál, eins og t.d. þessi, fyrir bæjarstjórn, ef menn mega ekki taka málefnilega afstöðu til þeirra. Ég vil hrósa þeim hjá J-listanum fyrir einurða afstöðu þeirra í þessu máli. Í fréttum sjónvarpsins á sunnudagskvöld vakti það athygli mína að Stígamót eru að fjalla um stórútgerð erlendra klámhringja og hafa þær greinilega áhyggjur af þeirri þróun sem verið hefur í henni Reykjavík, sínir það að það er ekki bara hér í Reykjanesbæ að fólk vill láta í sér heyra og hafa áhrif á þróun mála. Það er fyrir almannaheill að ég, og ég þori að fullyrða, flestir bæjarbúar, viljum ekki sjá þessa starfsemi innan okkar bæjarmarka. Án þess að þekkja Jón M. Harðarson, þá hef ég þó þá trú á honum að hann geti sómað sér vel í öðru starfi og haft góðar tekjur af, honum og fjölskyldu hans til heilla. Ég vil trúa því að Jón fái séð, að þessi starfsemi sem hann hefur haft í hyggju að opna, er hvorki honum né bæjarfélagi okkar til framdráttar og að hann dragi kæru sína til baka. Að lokum vil ég segja það að ég og söfnuður minn (Hvítasunnukirkjan-Vegurinn) biðjum blessunar Drottins fyrir Jón og fjölskyldu hans. Í Guðs friði, Tómas Ibsen.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024