Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Tölum íslensku
Laugardagur 15. september 2018 kl. 06:15

Tölum íslensku

„Krakkarnir geta í raun og veru ekki útskýrt hvers vegna íslenska er ekki svöl,“ segir Birta Rós Arnórsdóttir, kennari í Grunnskóla Sandgerðis

Hún kennir íslensku sem annað tungumál í Þjóðgarði sem er deild innan Grunnskóla Sandgerðis og tók við þeirri kennslu haustið 2017. Helsta markmið hennar er að fá erlend börn til að vilja tala íslensku. Hún segist vilja kveikja áhuga nemenda á að tala íslensku, gera það eftirsóknarvert að tala málið í landinu og er metnaðarfullur kennari sem leggur sig fram um að ná árangri. Blaðamanni var bent á að spjalla við Birtu Rós Arnórsdóttur einmitt vegna þess hve áhugasöm hún væri um íslenskt mál og íslenskukennslu.

Tungumálið lærist snemma

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar Birta Rós Arnórsdóttir skráði sig í háskólanám árið 2013 lagði hún af stað með fyrirfram ákveðnar hugmyndir og kreddur um íslensku. Henni fannst hún nokkuð sleip í málinu og þóttist tilbúin í hið fræðilega umhverfi Háskóla Íslands. Aldrei hefur henni verið eins brugðið og þegar leið á námið. „Allar skoðanir mínar virtust byggðar á misskilningi. Einhvern tímann hafði ég heyrt því fleygt að tungumál væri lifandi en annarri eins upplifun átti ég ekki von á. Tökuorð og slettur voru ekki hið versta, þegar allt kom til alls. Þágufallssýkin/-hneigðin læðist inn snemma á ævinni. Börn heyra ákveðna málnotkun á máltökuskeiðinu sem er tímabilið frá fæðingu og fram að kynþroska og þá er nánast ekki aftur snúið. Þágufallssýki hefur kannski hreint ekkert með íslenskukunnáttu að gera, ekki frekar en nýja þolmyndin, það var sagt mér. Sumir nota hana og aðrir ekki. Ég sat námskeið í háskólanum með algjörum íslenskusnillingum sem sögðu: „Það var rétt mér bókina,“ og þau sáu eða heyrðu ekkert athugavert við þá málnotkun. Allt er breytingum háð og líka málkerfið okkar,“ segir Birta Rós.

Tæknin er yfirleitt á ensku

Með tilkomu snjalltækja og tölva koma inn mikið af tökuorðum á borð við Snapchat, Facebook og Photoshop.  Þá talar fólk jafnvel um að snappa, feisbúkka og fótósjoppa. Allar þessar tilbúnu sagnir falla vel að málkerfi íslendinga og beygjast eins og veikar sagnir. Birta Rós segist ekkert hafa nema gott um það að segja því það gefur til kynna hvað málkerfi Íslendinga er sterkt. Það sem hún hefur þó áhyggjur af er snjalltækjanotkun ungra barna á máltökuskeiði og notkun foreldra á slíkum tækjum því þá er viðbúinn samskipta- og tengslavandi. Börn eiga auðveldara með að nálgast afþreyingu á ensku í gegnum snjalltækin sín og spila einnig tölvuleiki þar sem þau tala saman á ensku. Íslendingar eða íslensk stjórnvöld þyrftu að leggja miklu meiri pening í tæknina, að þýða meira yfir á móðurmálið okkar á tæknisviðinu og auðvitað þarf að semja mun fleiri bækur á íslensku fyrir börn og unglinga.  

Er enska meira spennandi?

Birta Rós segir blaðamanni frá sérstakri uppgötvun hennar varðandi málnotkun barna. „Í starfsumhverfi mínu í skólanum líkt og annars staðar, heyri ég börn á öllum aldri tala saman á ensku. Þá á ég ekki einungis við börn af erlendum uppruna, heldur alíslensk börn sem hafa íslensku að móðurmáli. Slíka hegðun á ég mjög erfitt með að skilja. Hvers vegna kjósa íslensk börn að tala ekki móðurmál sitt? Við þurfum að knýja í gegn hugarfarsbreytingu og gera íslensku eftirsóknarvert tungumál að læra og tala. Ég hef oft spurt börnin hvers vegna þau tali ensku á göngunum, en þeim er svara vant. Þau geta í raun og veru ekki útskýrt hvers vegna íslenska er ekki svöl“.

Kveikir í nemendum

Í kennslustundum hefur Birta Rós brugðið á það ráð að draga fram staðreyndir um tungumál. Hún skoðar með nemendum sínum heimskort og þau velta fyrir sér eftirfarandi spurningum: Hvað eru löndin stór þar sem enska er töluð? Hvað eru margar manneskjur sem tala ensku?  Hvað tala margir íslensku? „Ég útskýri fyrir þeim hvað íslenska er gamalt tungumál sem hefur þó breyst mjög lítið í aldanna rás. Ég reyni að byggja upp stolt og merkilegheit í kringum þetta fallega tungumál sem íslenskan er, án þess þó að bregða skugga á móðurmál nemenda, sem eru ekki síður merkileg,“ segir hún með áherslu. Svo endar Birta Rós á því að segja frá háskólaprófessor sem sagði eitt sinn við hana þegar hún spurði hann hvað væri hægt að gera til að gera íslensku mikilvæga í hugum ungmenna. Hann svaraði henni stutt og laggott: „Hringdu í mig þegar þú veist svarið!“