Tólf manns með sex málverkasýningar í Menningarviku
Alls verða sex fjölbreyttar málverkasýningar í Menningarvikunni í Grindavík sem verður dagana 12. til 20. mars. Ásmundur Friðriksson alþingismaður verður með sýningu á kaffihúsinu Bryggjunni. Sýningin ber yfirskriftina „Blítt og létt við Suðurströndina" og opnaði formlega í gær. Sýningin verður opin út Menningarvikuna og jafnvel lengur. Ásmundur, sem fagnaði 60 ára afmæli sínu fyrir skömmu, hefur haldið nokkrar einkasýningar.
„Þó engin mynd sé frá Grindavík, nema andlitsmynd af Palla í Vísi, þá eru tengingar Eyjanna og Grindavíkur sterkar og það er mér í huga með sýningunni. Ég ætla jafnframt að sitja við og mála mynd á sýningunni þegar ég hef tíma,“ segir Ásmundur sem býður alla velkomna á sýninguna.
Halldór Ingi Emilson verður með málverkasýningu í Kvikunni í Menningarvikunni en hann er búsettur í Grindavík. Halldór Ingi er 33 ára og stundaði myndlistanám við Myndlistadeild Fjölbrautarskólans í Breiðholti og lauk stúdentsprófi þaðan. Hann stundaði síðan nám í listfræði við Háskóla Íslands árið 2005 til 2006. Halldór hefur teiknað og málað frá barnsaldri. Verk hans eru gjarnan innblásin af íslenskri náttúru. Kemur víða fram næmni hans á stórkostlega liti náttúrunnar og samspil skugga og ljóss. Hann málar gjarnan myndir sínar á staðnum. Stillir upp trönunum og málar þær fyrirmyndir sem hann heillast af í náttúrunni. Halldór hefur líka stundað nám í tónlist við Tónlistaskóla FÍH og er eins og tónlistin komi oft fram í blæbrigðum myndanna. Halldór hefur haldið einkasýningu í Reykjavík. Sýningin verður opin á opnunartíma Kvikunnar, 12. og 13. mars og 19. og 20. mars.
Það verður stór stund fyrir brottflutta Grindvíkinginn Rúnar Þór Þórðarson frá Bræðratungu þegar hann opnar málverkasýningu í Menningarvikunni í Framsóknarhúsinu. Rúnar Þór, sem verður 65 ára í ár, opnar þá sýna fyrstu einkasýningu en hann hefur áður tekið þátt í þremur samsýningum. „Það er smá kvíði í manni en það verður gaman að sjá hvernig tekið verður á móti brottfluttum Grindvíkingi,“ segir Rúnar Þór og hlær. Hann sýnir aðallega myndir af bátum og frá landslagi í Grindavík, hann málar bæði á striga og krossviðsplötur.„Mér var hent út af vinnumarkaðinum og byrjaði að fikta við þetta fyrir fimm árum eða svo. Í tvö ár var ég hjá Hlutverkasetrinu og þar var myndlistakona sem var að kenna og sótti ég tíma hjá henni í tvö ár. Við vorum fjögur sem stofnuðum svo saman myndlistaklúbb, leigðum okkur sal og þar höfum við málað frá tíu til þrjú einhverja daga í viku. Klúbburinn er enn starfandi,“ segir Rúnar Þór. Römm er sú taug og um leið og hann tók pensilinn í hönd leitaði hugurinn strax á heimaslóðir í Grindavík með viðfangsefni. „Ég er uppalinn í Grindavík, stundaði sjóinn og var í slorinu. Um leið og ég fór að mála komu æskuslóðirnar strax fram. Ég á fullt af skyldfólki í Grindavík og því verður gaman að koma þangað og halda sína fyrstu einkasýningu,“ sagði Rúnar Þór.Sýningin verður opin frá laugardeginum 12. mars til föstudagsins 19. mars í Framsóknarhúsinu við Víkurbraut.Í Verkalýðshúsinu Víkurbraut 46 verður samsýning grindvískra málara. Anna María Reynisdóttir, Berta Grétarsdóttir, Lóa Sigurðardóttir, Sólveig Óladóttir og Þóra Loftsdóttir sýna verk sín sem þær hafa málað undanfarin misseri. Þær stöllur eru hluti af Handverksfélaginu Greip í Grindavík og hafa áður haldið skemmtilegar sýningar.
Í Bókasafni Grindavíkur í Iðu, Ásabraut 2 eru tvær sýningar. Annars vegar Fannar Þór Bergsson leirlistamaður og eigandi „Leira meira“ sem verður með sýningu á fígúrum sem hann hefur leirað og tengjast þær allar teiknimyndum á einn eða annan hátt. Popplistamaðurinn Hjalti Parelíus verður með sýningu á myndum sínum og verða einhverjar þeirra til sölu ef fólk hefur áhuga á að næla sér í verk eftir einn af okkar áhugaverðustu samtíma listamönnum.
Helga Kristjánsdóttir bæjarlistamaður Grindavíkur 2016 verður ekki með eiginlega myndlistasýningu heldur verður hún með opna vinnustofu að Vörðusundi 1 dagana 18. og 19. mars frá kl. 13-18.
Málverkasýning Gunnellu verður á Northern Light Inn alla Menningarvikuna. Guðrún Elín Ólafsdóttir sýnir verk sín en hún sækir efni mynda sinna í íslenska náttúru og sögu, þar sem íslenska bóndakonan skipar aðalhlutverkið.