„Tökum stundum myndir af Valda,“ segir Þorvaldur Halldórsson trommari Valdimar
Þorvaldur Halldórsson er oftast hinn Valdinn. Hann er trommari í einni vinsælustu hljómsveit landsins, Valdimar, en þar er oftar en ekki Valdimar Guðmundsson í forsvari fyrir sveitina og hlýtur jafnan athygli á götum úti. „Ég get ekki sagt að við hinir séum stoppaðir mikið úti á götu en Valdimar söngvari er stundum beðinn um að stilla sér upp í myndatöku með gangandi vegfarendum, oftar en ekki erum það svo við sem tökum myndina,“ segir Þorvaldur léttur í bragði. Hann segir sumarið hafa verið mjög fínt hjá sveitinni. Þeir hafi spilað út um allt og tekist að kynna sig mjög vel.
Hljómsveitin fór í nokkurs konar hálfhring um landið í sumar og segir Þorvaldur það hafa verið mikið ævintýri og skemmtilegt. „Við fórum á nokkrar tónlistarhátíðir í sumar og spiluðum m.a. á Bræðslunni á Borgarfirði-Eystri, Gærunni á Sauðárkróki, Bestu útihátíðinni og svo í Galtalæk. Það var athyglisvert. Við spiluðum aðallega fyrir mýflugur þar.“ Um verslunarmannahelgina voru krakkarnir í Valdimar á Innipúkanum þar sem spilað var með goðsögninni Eyjólfi Kristjánssyni. „Það var mjög skemmtilegt. Þar var lagt upp með að færa lögin hans Eyfa í okkar búning og við vorum búnir að breyta þeim töluvert og vorum smeykir um að hann brygðist illa við. Hann tók hins vegar vel í þetta og hafði að ég held mjög gaman af þessu. Við höfum alveg haldið lögunum hans inni í okkar prógrammi eftir þetta og fólk er byrjað að biðja um Álfheiði Björk á tónleikum.“
Valdimar spiluðu á rafmagnslausum tónleikum á vegum gogoyoko á fimmtudag og segir Þorvaldur þá hafa heppnast ákaflega vel. „Stemmingin var góð og við vorum aðeins að breyta lögunum okkar, setja þau í nýjan búning.“ Svo tóku þeir þátt í tónleikum til styrktar leikskólakennara sem fram fóru á Nasa í gærkvöldi.
Þorvaldur á einn texta á fyrstu plötu sveitarinnar en það samdi hann við lagið Yfirgefinn sem hefur sennilega verið þeirra vinsælasta lag. Hann segir alla meðlimi sveitarinnar vera að semja hver í sínu horni þessa dagana en þeir eigi eftir að hittast og prufa þetta efni og væntanlega komi ekki ný plata frá þeim félögum fyrr en næsta sumar.
Stundum hefur Þorvaldur verið að tromma með hljómsveitinni Klassart úr Sandgerði en nú í sumar hafi verið nóg að gera með Valdimar og lítið um að vera hjá krökkunum í Klassart. Hann kennir svo trommuleik í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og í Garðinum. Hann lærði sjálfur trommuleik við FÍH og útskrifaðist þaðan 2009.
Fljótlega ætla Valdimar-liðar að taka sér smá frí og hittast og vinna aðeins í nýju efni. „Það er kominn tími til þess að koma með eitthvað nýtt efni, þetta hefur verið mikið spilað það sem við eigum til og kannski komin þörf á nýju lagi í útvarp. Við erum farnir að spila eitt nýtt lag á tónleikum sem er kannski ekki alveg tilbúið, við eigum bara eftir að fara og taka það upp.“
Hljómsveitin hefur notið mikilla vinsælda og er ein umtalaðasta hljómsveit landsins og lög þeirra ná til breiðs aldurshóps og eru jafnan spiluð á flestum ef ekki öllum útvarpsstöðvum landsins. „Það er bara gaman, en allt þetta umtal og „hæp“ í kringum okkur kom okkur algerlega á óvart. Við lögðum ekkert upp með að koma okkur í útvarpið, við vildum bara semja góða músík til að skemmta okkur. Við höfum fundið fyrir því að svo virðist sem að breiður aldurshópur sé að meta tónlistina okkar og mæta á tónleika hjá okkur, allt frá unglingum til þeirra sem komin eru á besta aldur.“
Verður ekkert erfitt að fylgja þessu eftir með hinni alræmdu annarri plötu? „Jú svona á vissan hátt verður það kannski pínu erfitt en maður þarf að passa sig á því að láta ekki utanaðkomandi pressu hafa áhrif á það hvernig næsta plata verður. Af því að þetta hefur notið einhverra vinsælda þá býst fólk kannski við einhverju svipuðu en við ætlum ekkert að flýta okkur of mikið, þó svo að við séum ekkert að draga plötuna á langinn.“