Tökulag betra í flutningi Of Monsters and Men?
-Indieshuffle.com heillaðir af Of Monsters and Men
Hljómsveitin Of Monsters and Men, sem skipuð er að hluta Suðurnesjafólkinu Brynjari Leifssyni og Nönnu Bryndísi Hilmarsdóttur, er á tónleikaferð um Evrópu um þessar mundir. Sveitin kemur fram á tónleikum í Róm í kvöld en sveitin hefur leikið víða um heim síðustu mánuði.
Auk þess að leika lög af fyrstu plötu sinni, My Head is an Animal, þá hefur sveitin bryddað upp á því að leika tökulög frá þekktum sveitum í tónleikum sínum.
Lag dagsins á vefsíðunni Indieshuffle.com er einmitt lagið Skeletons með hljómsveitinni Yeah Yeah Yeahs en í flutningi Of Monsters and Men. Heyra má lagið hér að neðan og hefur því verið fleygt fram að lagið sé jafnvel betra í flutningi íslensku sveitarinnar.
Hér má sjá umfjöllun Indieshuffle.com um lagið og Of Monsters and Men en stjórnandi síðunnar virðist vera mikill aðfáandi sveitarinnar ef marka má umsögn hans um sveitina.
„Það sem er líklega svalast við þessa útgáfu er að hún virðist vera tekinn upp ‘live’. Miðað við hljómgæðin þá er það ansi tilkomumikið. Það er augljóst að þau í Of Monsters and Men eru mjög hæfileikarík,“ segir Jason Grishkoff stjórnandi Indieshuffle.com. Áður hafa nokkur lög með sveitinni verið lag dagsins á síðunni sem sérhæfir sig í að finna ný og spennandi lög úr hinum ýmsu áttum.