Tók rúma tvo mánuði að komast heim vegna COVID-19
Ingvar var fastur um borð í frystitogara á argentískri eyju
Ingvar Þór Jóhannesson er loksins kominn heim til sín í Mocoretá í Argentínu eftir að hafa verið fastur um borð í frystitogara við bryggju í Ushuaia í Argentínu frá því í 26. mars. Kann komst loksins heim laugardaginn 30. maí og hafði dvalið um borð í skipi sínu, San Arawa II, allan þennan tíma eða í rúma tvo mánuði. Hann fór með flugi frá Ushuaia til Buenas Aires í Argentínu og þaðan með einkabíl heim.
Við ræddum við Ingvar Þór í Víkurfréttum um miðjan apríl. Hann starfar sem verksmiðjustjóri á frystiskipinu San Arawa II sem gert er út frá Argentínu. Skipið kom í höfn í Ushuaia í Argentínu 26. mars, eins og áður segir. Ushuaia er syðsta byggða ból í Argentínu og í raun næsti bær við Suðurskautslandið.
Ástæða þess að Ingvar og aðrir áhafnarmeðlimir komust ekki til síns heima í Argentínu var sú að flugvellinum í Ushuaia var lokað þar sem fjölmargir starfsmenn þar höfðu smitast af COVID-19. Þá er Ushuaia á argentískri eyju með landamæri að Síle og áhöfninni var óheimilt að fara yfir landamæri til að komast heim. Ingvar hefur búið í Argentínu í sautján ár og starfað á verksmiðjutogurum í þrjá áratugi. Hann flutti tvítugur til Nýja Sjálands og var þar á verksmiðjuskipum í þrettán ár og hefur verið í sautján ár á skipum sem gerð eru út frá Argentínu.
Þegar Ingvar komst loks heim tók ekkert betra við. Heimabærinn Mocoretá er í sóttkví. Daginn áður en Ingvar kom heim til sín greindust átta fyrstu smitin í bænum. Það voru einstaklingar sem voru búnir að valsa um í tíu daga án þess að vita af smiti og því var bærinn settur í sóttkví.
„Ég má ekki einu sinni fara út að labba,“ segir Ingvar í samtali við Víkurfréttir. Hann segir alltof lítið um sýnatökur vegna kórónuveirunnar en þær séu að aukast núna. Efnahagslífið í Argentínu er í rúst eftir þriggja mánaða höft vegna veirunnar og nú er búið að framlengja höftin til loka júlí. „Það eru allir hræddir hérna í Argentínu vegna ástandsins í Brasilíu en Brasilíumenn eru komnir í annað sætið á heimsvísu yfir smit og dauðsföll vegna kórónuveirunnar.“
Sjómannslífið hjá Ingvari er þannig að hann er í 40 daga á sjó og svo aðra 40 daga í landi, þannig að hann vinnur í raun sex mánuði á ári og er sex mánuði í fríi. Frystitogarinn San Arawa II er á hvítfiskveiðum við landhelgi Falklandseyja og einnig við Suðurskautslandið. Þá heldur skipið sig einnig nærri lögsögu Síle. Fiskurinn er frystur í blokk og fer til skyndibitastaða á vegum McDonalds í Kína.
Þegar Víkurfréttir heyrðu í Ingvari var hann í garðinum við heimili sitt í Mocoretá að grilla þriggja kílóa nautasteik. Argentískar nautasteikur eru þekktar á heimsvísu en kílóið af úrvals nautakjöti er á innan við 1.000 krónur.
Ingvar á von á því að fara um borð í togarann í lok júlí. Þá verður farið með flugi Ushuaia þar sem áhöfnin mun fara í fjórtán daga einangrun áður en hún fer um borð í togarann. Ekkert smit hefur komið upp hjá útgerðinni til þessar.
Þó svo Ingvar hrósi happi yfir því að vera kominn heim þá eru tveir íslenskir skipstjórar hjá útgerðinni sem komast ekki frá borði þar sem að skipstjórar sem eiga að leysa þá af fá ekki að koma til Argentínu. Skipsstjórarnir íslensku eiga því von á að þurfa að vera um borð í skipum sínum fram til loka september.