Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Tók líkamsræktina með sér í Asíureisu
Miðvikudagur 23. október 2013 kl. 08:49

Tók líkamsræktina með sér í Asíureisu

- Heldur sig við efnið á ferðalögum sínum um heiminn

Í huga margra Íslendinga er tilgangurinn með ferðalögum erlendis oftar en ekki að sóla sig á strönd, borða góðan mat, versla og að slappa af. Skúli Pálmason, 26 ára Grindvíkingur er ekki hinn hefðbundni íslenski ferðamaður sem fer á sólarströnd og flatmagar þar. Síðustu fjóra mánuði hefur Skúli verið á ferðalagi um Asíu og er hann staddur í Indónesíu þessa dagana. Skúli útskrifaðist í vor með háskólagráðu í sjúkraþjálfun en áður hafði hann lært til einkaþjálfarans og starfað sem slíkur meðfram sjúkraþjálfaranáminu. Að auki rekur hann heilsuræktarsíðuna Púlsþjálfun.is með félaga sínum. Skúli vildi ekki hætta að stunda líkamsrækt þó hann færi í langt bakpokaferðalag og hefur hann náð að tvinna saman ferðalög og líkamsrækt en í Asíu nýtir hann umhverfið og náttúruna til þess að fá sem mest út úr hreyfingunni.

Tekur upp óhefðbundin líkamsræktarmyndbönd

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Á bloggsíðu sinni travelandfitnessblog.com segir hann frá ævintýrum sínum í Asíu en einnig setur hann inn myndbönd með æfingu vikunnar, þar sem hann tekur oft fremur óhefðbundnar æfingar sínar upp á myndbandsupptökuvél. „Ég er að hreyfa mig allt öðruvísi á ferðalaginu heldur en heima. Þar fór ég í ræktina 4-5 sinnum í viku og hreyfði mig svo lítið það sem eftir lifði dags. Hérna er ég stöðugt á hreyfingu. Ég reyni að ganga í staðinn fyrir að taka hræódýra leigubíla, hjóla mikið og stunda mjög fjölbreytta hreyfingu. Núna var ég til dæmis að koma af ströndinni þar sem ég spilaði strandblak í þrjá tíma og daginn þar áður var ég að „snorkla“ í fjóra tíma. Þannig að það má segja að ég sé að stunda mun „heilbrigðari“ hreyfingu þar sem ég er allan daginn að hreyfa mig,“ segir Skúli.

Skúli segir mikinn misskilning að til þess að koma sér í gott form, verði maður að hafa aðgang að góðum búnaði eða líkamsræktarstöðvum. Áður en ferðalagið hófst ákvað Skúli að setja á fót heimasíðuna til þess að sýna fólki hversu fjölbreyttar æfingar er hægt að gera án þess að nota líkamsræktartæki. „Það er fullt af fólki að ferðast í lengri tíma og mig langaði að hjálpa því að halda sér í formi á ferðalögum. Maður þarf ekkert nema eigin líkamsþyngd til þess að gera krefjandi styrktaræfingar.“

Gisti með leðurblökum og snákum í frumskógi Sri Lanka

Í reisunni hefur Skúli heimsótt þónokkur Asíulönd en fyrsti áfangastaður var Tæland, þar sem hann dvaldi í þrjár vikur ásamt bekkjarsystkinum sínum úr háskólanum. Síðan þá hefur hann heimsótt Filippseyjar, Sri Lanka, Indónesíu og Singapúr og segist hann ætla að reyna að ferðast eins lengi og peningarnir leyfi. „Þetta verður óvissa næstu mánuði en ég mun alla vega verða kominn heim fyrir útskrift systur minnar í desember.“ Skúli hefur nú þegar safnað miklu í minninga- og reynslubankann en auðvelt er að gleyma sér yfir lesningu ævintýralegra frásagna á bloggsíðu hans. Þar segir t.d. frá því þegar Skúli neyddist til þess að sofa aleinn í frumskógi Sri Lanka þar sem leðurblökur og snákar umvöfðu tjaldið hans, eða þegar hann afhöfðaði kjúkling rétt áður en hann var eldaður í hádegismat.

Algjört frelsi að ferðast einn

Asíureisan er ekki fyrsta langa ferðalag Skúla en fyrir nokkrum árum fór hann í átta mánaða heimsreisu með frænda sínum. Í þetta skiptið hefur hann ferðast einn síðan hann skildi við bekkjarfélagana eftir útskriftarferðina. „Þó að það hafi verið virkilega gaman að hafa félagsskap í síðustu heimsreisu, finnst mér þetta alls ekkert síðra. Í rauninni finnst mér þetta alveg frábært þar sem ég er algjörlega frjáls og get gert allt sem ég vil, akkúrat þá stundina sem ég vil. Einnig er auðveldara að kynnast nýju fólki og maður er alltaf með nýjan og nýjan skammtímaferðafélaga.“

Nokkur lönd eru í uppáhaldi hjá Skúla en þar má nefna Perú, Tæland, Filippseyjar, Marokkó og Sri Lanka. Einnig nefnir Skúli nokkra staði sem eru yndislegir í minningunni, ekki endilega vegna þess hve frábær staðurinn var, heldur spila aðrir hlutir inn í. „Þetta eru staðir þar sem maður kynntist frábæru fólki og stemningin var ólýsanleg. Nú síðast var það hostel í Chiang Mai í Norður-Tælandi. Það er alveg á planinu að heimsækja Chiang Mai aftur í lok ferðar bara til að heimsækja hostelið aftur,“ sagði Skúli að lokum.