Tók í spaðann á Magic Johnson og Steven Segal
Bergsveinn Alfons Rúnarsson, fæddur hið merka ár 1983, starfar sem þjónustustjóri farþegaafgreiðslu IGS á Keflavíkurflugvelli. Bergsveinn á eina litla dóttur, hana Kamillu Nótt, með Guðríði Jónsdóttur. Hann kláraði grunnskólann með stæl og svo lá leiðin í FS. „Þar átti ég nokkur skemmtileg ár en stuttu áður en ég nálgaðist hvítu húfuna ákvað ég að taka mér frí og stendur það ennþá yfir,“ sagði Bergsveinn. „Ég þarf að fara að klára þetta svo ég fái þessa blessuðu húfu.“
Bergsveinn er með yfirumsjón yfir starfsemi farþegaafgreiðslunnar en það er innritun farþega og almenn þjónusta við þá. Einnig sér hann um móttöku flugvéla og að birgja þær upp. „Ég vinn á tólf tíma vöktum, bæði daga og nætur. Þegar ég er á næturvakt, geng ég frá deginum sem leið og undirbý næstu daga.“
Bergsveinn hóf starf hjá IGS árið 1997 og þá sem kerrustrákur. Hann hefur svo unnið við hin ýmsu störf innan IGS eins og í hlaðdeild, Catering og Load control en byrjaði svo í farþegaafgreiðslunni árið 2005. „Mér finnst þetta frábært starf. Þetta er mjög fjölbreytt og dagarnir því yfirleitt aldrei eins. Oftar en ekki er mjög mikið að gera hjá okkur og mikið álag en við höfum svo frábært starfsfólk að það gengur alltaf allt upp að lokum,“ sagði Bergsveinn, aðspurður hvernig honum líkaði starfið. „Það sem mér finnst skipta mestu máli er að mórallinn hjá okkur er eins góður og hann gerist og því er alltaf gaman að mæta í vinnuna.“
Mikið af fræga fólkinu hefur komið í heimsókn til Íslands og auðvitað þarf það að fara í gegn hjá Bergsveini. En hvaða frægi einstaklingur er þér minnisstæðastur? „Maður hefur nú alveg hitt þá nokkra en minnisstæðast var að taka í spaðann á Magic Johnson og Steven Segal,“ sagði Bergsveinn stoltur. „Er samt ennþá að bíða eftir því að Kate Hudson komi og kíki á kallinn.“
Bergsveinn hefur þurft að ferðast nokkuð vegna vinnunnar, bæði innanlands sem utan. „Ég fór fyrir nokkrum árum til Parísar vegna vinnunnar á meðan starfsfólkið þar var í setuverkfalli en það var bara gaman og fróðlegt. Svo stóð maður vaktina á Akureyri á meðan á eldgosinu stóð, strembið verkefni en ótrúlega gaman. Starfsfólk IGS og Icelandair gerðu ótrúlega hluti við að halda fluginu gangandi á meðan stóru flugfélögin úti í heimi felldu niður flug í hrönnum.“
Bergsveinn er mjög ánægður með starfið sitt og er ekkert á leiðinni að hugsa sér að breyta neitt til eins og staðan er í dag. „Mér líkar þetta mjög vel en ég hef þó ekki ennþá ákveðið hvað ég ætla að verða þegar ég verð stór,“ sagði Bergsveinn, þó hann sé nú orðinn nokkuð stór.
[email protected]