Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Töff Loftleiðastemming í London
Miðvikudagur 25. ágúst 2004 kl. 18:18

Töff Loftleiðastemming í London

Flugmálafélag Íslands, í samvinnu við Iceland Express, hefur skipuslagt hópferð til London dagana 4.-6. september nk. 
Kjörrð ferðarinnar er: “Loftleiðastemming í London” og hún helguð 60 ára afmæli Loftleiða sem er í ár.
 “Við viljum minnast Loftleiða, eins flottasta og framsæknasta fyrirtækis Íslandssögunnar, fyrirtækis sem var sannkallaður þjóðasómi og kom Keflavíkurflugvelli í eitt skipti fyrir öll á heimssöguspjöld farþegaflugsins með umsvifamikilli starfsemi sinni og vinsældum fyrir lág fargjöld og frábæra þjónustu um borð”, segir Gunnar Þorsteinsson formaður Fyrsta flugs félagsins og fararstjóri í ferðinni. “Nokkur þúsund Suðurnesjamanna hafa starfað upp á velli hjá Loftleiðum og ég er viss um næstum. allir, ef ekki bara allir með tölu, hefur þótt sérlega skemmtilegt að vinna hjá þessu nerka fyrirtæki í gömli góðu flugstöðinni með sjarmann mikla. Krafturinn í Lotfleiðum var svo mikill að allair starfsmenn hljóta að hafa verið stoltir af þessu flugævintýri öllu saman”, bætir hann við. 

Arngrímur í Atlanta + Loftleiðahetjurnar Kristjana Milla,
Maggi Guðmunds, Smári Karls og Dagfinnur heiðursgestir

Sérstakir heiðursgestir í ferðinni eru fimm góðkunnir einstaklingar og þjóðþekkt fólk fyrir heilladrjúg störf sín að íslenskum flugmálum. Kristjana Milla Thorsteinsson, fyrrum stjórnarmaður í Flugleiðum og ekkja Alfreðs Elíassonar er var einn af stofnendum Loftleiða. Ennfremur þrír af elstu flugstjórum Loftleiða sem nú eru á aldrinum 78 til 88 ára: Magnús Guðmundsson, Smári Karlsson og Dagfinnur Stefánsson sem eru með íslensk flugskírteini nr. 9, 10 og 26. Tveir þeirra síðarnefndu eru ennþá virkir einkaflugmenn. Sérstök ánægja er að kynna að einni öflugasti flugáhugamaður Íslands - Arngrímur B. Jóhannsson, annar af stofnendum Atlanta og forseti Flugmálafélags Íslands – mun verða fimmti heiðursgesturinn hluta af ferðinni.

Iceland Express hefur stutt flugáhugann í verki
Flogið verður til London laugardagsmorguninn 4. september og haldið heim eftir þrjá daga eða á mánudagskvöldið þann sjötta. “Við höfum valið Iceland Express sem flugfélag ferðarinnar. Stjórnendur þessa unga fyrirtækis hafa frá upphafi sýnt skilning og stutt í verki dyggilega við áhugamannastarf í grasrót flugsins og hafa greinilega áttað sig á því að þar er uppspretta framtíðarinnar í fluginu. Þar byrjar öll flugstarfsemi og vex síðan og dafnar í allar áttir. Þetta er einfalt mál – flugáhugamenn beinum viðskiptum til þeirra sem styðja okkur þegar við mögulega getum”, segir Gunnar.

Gott fjögurra stjörnu hótel á fínu verði á besta stað
 Það virðist vera nóg framboð af hótelum í London í septemberbyrjun nk. og því unnt að gera hagstæða samninga fyrir hópa. Þannig höfum við fengið glæsilegt fjögurra stjörnu hótel á sama verði og sæmilegt þriggja stjörnu. Hótelið okkar heitir Holiday Inn-Bloomsbury og er í samnefndu hverfi, alveg rétt við British Museum í sjálfri miðborg Lundúna. Aðeins steinsnar frá Oxford-stræti.

Heimsókn á flottasta flugminjasafn Evrópu
sem er í ekta breskri sveitarsælu

Hápunktur ferðarinnar verður einn dagur á stærsta flugminjasafni Evrópu sem er í Duxford við háskólabæinn Cambridge, klukkutíma aksturleið norður af London. Þar er athyglisvert flugvélasafn í fimm flugskýlum og auk þess herbíla- og vopnasafn.   
Eftir hádegið verður stanslaus flugsýning í tæpar fjórar klukkustundir þar sem fram munu koma tvíþekjur úr fyrri heimstyrjöldinni, orrustu- og sprengjuvélar úr þeirri síðari, þyrlur, nýtísku herþotur af ýmsum gerðum, m.a. fylkingarflug með AVRO Lancaster með Tornado-þotum). Lokaatrið verður 15-20 mínútna stórkostlegt listflug hinna heimsþekktu Rauðu örva, listflugsveitar breska flughersins, þjóðarstolts Bretlands.

Eftir átta ára bið fá íslenskir flugáhugamenn
loks að heimsækja einn virtasta klúbb Bretlands

 Breski flugherinn mun koma víðar við sögu í þessari ferð. Lokaður einkaklúbbur hans, Royal Air Force Club, hefur ákveðið að opna dyr sínar fyrir íslenska flughópinum. Þar verður hádegisverður á mánudeginum. “Þetta höfum við reynt að fá í gegn í átta ár en það tókst loks fyrir tilstilli Arngríms B. Jóhannssonar sem er meðlimur í hinum mjög svo virta klúbbi. Arngrímur er ein af fáum undanteknum í þessum efnum því meðlimir verða að hafa þjónað í RAF”, segir Gunnar. Sá góði maður, Hugh Eccles úr 269 flugsveit RAF er þjónaði á Íslandi í seinni heimstyrjöldinni, og e.t.v fleiri gamlir flugsveitarmenn, munu heiðra okkur Íslendingana með nærveru sinni þarna í klúbbnum.

Ekki bara flugstúss – Líka skemmtun fyrir konur – Svo má niðurgreiða ferðina með jólainnkaupum á haustútsölunum
Farþegar hafa  einn og hálfa dag út af fyrir sig en á laugardeginum verður þó boðið upp á skipulagða ferð á Vísinda- og tæknisafnið og í orrustuskipið Belfast sem liggur á Thames-fljóti.
 Þetta er kórrétti tíminn til þess að fara á haustútsölurnar í London sem eru einmitt að byrja um þetta leyti árs. Benda má á að tilvalið er að nota þessa ferð til að huga að jólagjafakaupunum bæði í London og einnig í Fríhöfninni. Þá má nefna þann möguleika að kaupa árshátíðardress fyrir frúna og herran þarna á útsölunum. Athygli er vakin á því að ekki er virðisaukaskattur á barnafötum í Bretlandi.
 Á laugardagkvöldið verður boðið upp á sameiginlegan 5-6 rétta lúxus Kínakvöldverð á einum af besta kínverska matsölustað Lundúnaborgar á afar hagstæðu verði. Á sunnudagskvöldið, eftir flugsýninguna, verður sameiginlegur kvöldverður að öllum líkindum í kastala skammt frá Duxford-flugvelli. Þar verður fjallað um Loftleiðir og Ómar Ragnarsson mun snarskemmta hópnum eins og hann einn getur – og gerir best í lokuðum hópi flugáhugamanna. 
 Farþegar í ferðinni munu fá sérstök nafnspjöld í hálsbandi og virðingarskjal (diploma) er undirritað verður af heiðursgestum ferðarinnar.

Kostakjör og upplýsingar
 Heildarverð: 49.400 krónur og þá er allt innifalið nema matur og drykkir. Innifalið er: Flug, flugvallaskattar, hótel, morgunverður, rútuferðir til og frá flugvelli, rútuferðir til og frá Duxford og aðgöngumiði á flugsýninguna.
 Unnt er að framlengja eða stytta ferðina án aukakostnaðar.
Möguleiki að lækka þetta verð ef þrír verða í herbergi, sem er ekkert mál því við verðum á hótelinu bara yfir blánóttina. Hér er fínn möguleiki til að spara peninga sem frekar má eyða til að kaupa bensín á einkaflugvélina og flögra um loftin blá.
 Nánari upplýsingar veitir Gunnar Þorsteinsson, fararstjóri hjá Flugmálafélagi Íslands.  Símar 5-6161-12 og 663-5800.  


Ljósmynd: Baldur Sveinsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024