Tjaldvörðurinn fékk Tjald í kveðjuskyni
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar afhenti Erlingi Hannessyni kveðjugjöf s.l. föstudag en Erlingur hefur séð um rekstur tjaldsvæðis og þjónustuhússins Stekks í um 10 ár.
Vel þótti við hæfi að gefa Erlingi uppstoppaðan Tjald við þetta tækifæri og þakkaði Árni fyrrum tjaldverðinum vel unnin störf þennan tíma. Erlingur hefur alltaf verið boðinn og búinn að aðstoða ferðamenn og reyndar líka heimamenn því fjölmörg félög og klúbbar í Reykjanesbæ hafa fengi inni í Stekk undanfarin ár.
Nú hefur fyrirtækið Alex ehf ákveðið að opna tjaldsvæði á mótun Reykjanesbrautar og Aðalgötu og hefur því verið ákveðið að hætta rekstri á tjaldsvæðinu við Stekk. Guðmundur Þórir eigandi Alex ehf mun þó sjá um tjaldsvæðið og Stekk fyrst um sinn og hefur hug á að veita sambærilega þjónustu við klúbba og félög og verið hefur.
Á núverandi tjaldsvæði við Stekk er verið að skipuleggja íbúðabyggð sem tengjast munu fyrirhugaðri sportakademíu, en frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.
Ljósmynd: Dagný Gísladóttir.