Tjaldið í skottinu og tónlistin í botni
Verslunarmannahelgin hjá Þóru Lind Halldórsdóttur
– Hvernig eru plönin hjá þér um verslunarmannahelgina?
„Planið er að setjast upp í bíl með vinkonu minni, vera með tjald í skottinu, setja góða tónlist á, elta góða veðrið og gera það besta úr aðstæðunum.“
– Breyttust plönin eitthvað vegna covid?
„Já, það má segja að plönin hafi tekið stóra U-beygju vegna covid. Ég var komin með miða á Þjóðhátíð og gistingu í Vestmannaeyjum alla verslunarmannahelgina en það bíður betri tíma.“
– Hver er skemmtilegasta minningin þín af verslunarmannahelginni?
„Ég á nokkrar góðar, til dæmis þegar ég fór á Þjóðhátíð 2014 og var með stórum vinahópi í húsi alla helgina og það var geggjað veður. Á líka góða minningu af því að vera upp í sveit þar sem maður fór t.d. á hestbak, fjórhjól og hafði það notalegt.“
– Er eitthvað sem þér finnst ómissandi þessa helgi?
„Ég hef í rauninni aldrei átt einhverja hefð varðandi þessa helgi en hún er alltaf skemmtileg þegar maður eyðir henni í stemmningu í góðra vina hópi og með fólki sem manni þykir vænt um – en jú lopapeysan er ómissandi!“